141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

566. mál
[22:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að ég og hæstv. ráðherra erum sammála um þetta. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en þó að það sé alls ekki ljóst hver niðurstaðan verður í málinu varðandi þau álitaefni sem Elvira Méndez Pinedo velti upp — hv. þm. Pétur Blöndal og ég fengum hana á fund efnahags- og viðskiptanefndar til þess að ræða það bréf sem hún fékk frá sérfræðingi framkvæmdastjórnarinnar — liggur hins vegar fyrir að ef gerð hafa verið mistök snúa þau væntanlega að innleiðingu tilskipana. Ef mistök hafa verið gerð er ansi líklegt að einhver kostnaður muni falla á ríkissjóð, í það minnsta er um að ræða um miklar breytingar og þá er ljóst að það sem menn hafa talið vera rétt og talið að stæðist gerir það ekki. Það og ýmislegt fleira ætti að kenna okkur að það borgar sig almennt að vanda sig en þó sérstaklega í þessum málum. Nú er málið komið í þingið. Þótt ég sé ekki sérfræðingur á þessu sviði held ég að hætta sé á því að ef við gerum einhver mistök, ef við gerum eitthvað sem er á skjön við þá tilskipun sem hér er, að það kunni að koma niður á okkur í náinni framtíð.

Ég mælist nú til þess að við skoðum málin í samhengi. Ég heyri að hæstv. ráðherra er sammála mér og ég treysti því að aðrir sem að málinu koma séu líka sammála því, því að mikið er undir. Við þurfum ekki að fara yfir hvað mistök geta kostað, þau geta valdið miklum skaða. Færa má rök fyrir því að mistökin sem gerð voru af fjármálafyrirtækjunum hafi verið mikið lán fyrir íslenska lántakendur þegar kom að erlendu lánunum, en það er aukaatriði. Aðalatriðið er að (Forseti hringir.) við verðum að fara betur yfir málið.