141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

566. mál
[22:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bera hönd fyrir höfuð bæði mín og hv. þm. Guðlaugs Þór Þórðarsonar. Við áttum orðastað áðan um þessi mál. Ég held að við höfum gætt þess mjög að hafa allan fyrirvara á þeim ályktunum sem við drógum. Það var alveg skýrt að ég sagði að ekki væri hægt að útiloka að í fyrstu tilskipuninni sem núverandi lög byggja á hafi verið að finna einhvers konar ákvæði sem vísuðu til krafna um að verðbætur væru líka hafðar inni sem hluti af þeirri tölu sem sýnir árlegan hlutfallskostnað lántakanda. Þetta vildi ég segja í fyrsta lagi.

Í öðru lagi er klárt að húsnæðislánin eru undanskilin. Hv. þingmaður beinir svo til mín þeirri spurningu sem byggir á því að Íslendingar sjálfir ákváðu að fella líka íbúðalán inn í þessi lög árið 2000. Ég treysti mér ekki til að kveða upp úr um hvort hægt sé að beita einhvers konar lögjöfnun til að ákveða þar með að þær kröfur eigi líka hér á landi að ná yfir íbúðalán, þótt í sjálfri neytendatilskipuninni sé algjörlega fortakslaust kveðið skýrt á um að hún nái ekki yfir húsnæðislánin. Ég mundi hins vegar telja svona „på stående fod“, með leyfi forseta, að svo væri ekki. Tilskipunin tekur einungis til þeirra lána sem eru andlag hennar. Það er skýrt tekið fram að íbúðalánin eru það ekki. Svo ég mundi hneigjast til að álykta að það hefði ekki áhrif.