141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

566. mál
[22:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Hv. þingmaður þekkir lánalöggjöfina örugglega miklu betur en ég og hefur að henni starfað og unnið, bæði á þinginu og utan þess, miklu lengur en ég. En muni ég rétt segja lög um neytendalán á Íslandi að þar sé um að ræða skammtímalán til fjögurra til sex ára. Þetta er að vísu haft eftir rosknu minni, en svona stendur það í mínum haus. Miðað við það er ljóst að húsnæðislán sem að öllu jöfnu eru til miklu lengri tíma en það falla ekki einu sinni undir það sem við á Íslandi höfum skilgreint sem neytendalán. Hitt er klárt að Evrópusambandið hefur gert nokkuð skýran greinarmun á þessu tvennu.

Eins og hv. þingmaður gat um í sínu síðara andsvari en líka undir lok hins fyrra er þessi tilskipun sett á grundvelli reynslu. Reynslan hefur leitt í ljós að fyrri neytendatilskipunin dugði ekki nægjanlega vel að því marki að skýra út fyrir þeim sem lán taka hvers konar kostnaður er líklegur til að falla á þá. Að minnsta kosti liggur ljóst fyrir að í sumum löndum innri markaðarins er svo ekki, Ísland þar með talið. Þarna er verið að reyna að gera bragarbót á því.

Ég vil að síðustu taka undir með hv. þingmanni og hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að ég tel að þetta mál sé það mikilvægt og flókið að sjálfsagt sé að efnahags- og viðskiptanefnd fái það til umfjöllunar, sér í lagi sökum þess að þessa dagana er hún upp að öxlum í því að vinna að löggjöf sem innleiðir þessa tilskipun. Hún er því í góðum færum með að ausa af brunnum þekkingar sinnar og nýfenginnar reynslu af málinu yfir til hæstv. utanríkismálanefndar.