141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

605. mál
[22:44]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi. Þetta er 605. mál á þingskjali 1028. Nú er það svo að við Íslendingar erum auðvitað í þeirri öfundsverðu stöðu að segja má að nær öll orka sem fólgin er í rafmagni og hita og er nýtt innan lands kemur úr innlendum, endurnýjanlegum orkugjöfum úr vatnsafli og jarðhita. Nýverið bættist vindorkan við, þó að í litlu sé, úr vindmyllum Landsvirkjunar. Öðru máli gegnir um samgöngur á landi, á láði og legi þar sem orkugjafinn sem nýttur er á samgöngutækin er enn sem komið er nánast alfarið innflutt jarðefnaeldsneyti. Einungis um 0,5% allrar orku sem nýtt er á samgöngutæki á landi er enn sem komið er af endurnýjanlegum uppruna og er að mestu leyti frá metani komið.

Markmið frumvarpsins er að hrinda af stað markvissum aðgerðum til að hvetja til orkuskipta í samgöngum með aukinni notkun endurnýjanlegs eldsneytis. Það er mikilvægt til að Ísland geti staðið sig í stykkinu og uppfyllt skyldur og kröfur sem meðal annars alþjóðasamþykktir gera til landsins um losun gróðurhúsalofttegunda og að draga úr slíkri losun, um orkusparnað og hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Það er í samræmi við markmið fjölmargra aðgerðaáætlana og þingsályktunartillagna sem hafa komið fram á undanförnum árum.

Það er auðvitað aðeins liður í miklu víðtækari aðgerðum sem hefur að verulegu leyti verið hrint í framkvæmd nú þegar, svo sem eins og með gjörbreyttri skattlagningu á umferð og með því að gera losun gróðurhúsalofttegunda að andlagi bifreiðagjalda og aðflutningsgjalda þannig að slík gjöld séu þeim mun lægri sem losunin er minni.

Með frumvarpinu er líka á ferðinni innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB um að leggja af stað í áttina að því að uppfylla bindandi skilyrði um 10% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum fyrir árið 2020. Auk þess er gerð sú krafa samkvæmt tilskipuninni og í frumvarpinu að allt lífeldsneyti til samgangna á landi skuli vera framleitt með sjálfbærum hætti þannig að gerðar eru þær kröfur til hinna endurnýjanlegu orkugjafa að framleiðsla þeirra sem slíkra sé líka sjálfbær. Það er auðvitað ljóst að ærið verkefni er fram undan í þeim efnum ef við ætlum að margfalda hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum, í raun og veru kannski tuttugufalda þann hlut miðað við núverandi stöðu samanber það sem áður sagði. Orkuskipti taka yfirleitt nokkurn tíma og það þekkjum við Íslendingar til dæmis hvað varðar okkar hitaveituvæðingu sem tók auðvitað fleiri áratugi og stendur reyndar yfir enn þar sem jarðhitaleit á köldum svæðum er haldið áfram og fleiri þéttbýliskjarnar og sveitir eru að bætast inn í hitaveituvæðingu.

Það sem oft hamlar orkuskiptum er að uppbygging nýrrar orkuframleiðslu þarf að koma til. Það þarf innviði og tækni sem þarf að þróa og getur allt tekið sinn tíma. Síðan þarf sú nýja tækni eða vara að vera aðgengileg almenningi og á samkeppnisfæru verði o.s.frv. Það þarf í raun óslitna keðju allt frá orkuframleiðslunni í gegnum dreifingargáttir og til viðtakandans eða kaupandans. Augljóst er að rafmagn til samgangna á landi væri að mörgu leyti augljósasti kosturinn fyrir okkur Íslendinga þegar og ef, eða þegar skulum við segja, rafbílar verða almennt komnir í almannaeigu og samkeppnisfærir. Þar væru hæg heimatökin hjá okkur með næga raforkuframleiðslu og alla þá innviði sem þarf til dreifingar hennar þó að mögulega þyrfti einhvers staðar að koma til styrking. Keðjan þarf náttúrlega að vera óslitin út á endann og viðtakandinn eða kaupandinn, þ.e. rafbíllinn, er náttúrlega enn aðeins til staðar í afar takmörkuðum mæli.

Metannotkun í samgöngum hefur hins vegar farið ágætlega af stað og verið stuðlað að slíkri þróun, bæði með því að gera metanbíla ódýrari í innkaupum og eins með því að styrkja fjárhagslega breytingu eldri bíla yfir á metan. Innan skamms kemur að því að huga þarf að aukinni framleiðslu og að sjálfsögðu að því að stórauka dreifingarnetið ef slík þróun á að geta gengið hnökralaust fyrir sig áfram.

Frú forseti. Til að gefa í og auka verulega þá hlutdeild miðað við núverandi aðstæður þarf að virkja menn til þátttöku. Við þekkjum hættuna af loftslagsbreytingunum og viljum gera okkar til að draga úr losun eftir því sem mögulegt er. Í tilviki Íslands eru samgöngurnar augljóslega nærtækasti og langþýðingarmesti kosturinn, samanber það sem áður sagði um hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa til raforku, kyndingar, ljósa og hitunar með rafmagni eða að uppistöðu til með jarðvarma.

Nýting lífeldsneytis til samgangna er ólíkt öðrum orkugjöfum ekki bundin við að nýir innviðir verði settir á laggirnar eða að við endurnýjum allan tækjakostinn í samgöngunum. Þess vegna hafa mjög mörg ríki horft til þess að leggja skyldur á söluaðila um að bjóða lífeldsneyti til sölu til að flýta fyrir þróuninni, styðja við framleiðendur nýrra orkugjafa og mæta þannig kröfunni um aukinn hlut endurnýjanlegrar orku í samgöngum. Nær allar þjóðir Evrópusambandsins auk Noregs hafa þegar innleitt kvaðir um íblöndun eða lágmarkssölu á eldsneyti af endurnýjanlegum uppruna.

Með frumvarpinu er söluaðilum eldsneytis á Íslandi gert skylt að tryggja að að minnsta kosti 3,5% af heildarorkugildi eldsneytis í vökva- eða gasformi sem þeir selja til notkunar í samgöngum á landi sé af endurnýjanlegum uppruna eigi síðar en 1. janúar 2015 en 5% frá og með janúar 2016.

Söluaðilum er frjálst að velja hvaða eldsneytistegundir þeir hafa í boði, hvort um er að ræða eldsneyti í hreinu formi, t.d. metan eða lífdísil, eða jarðefnaeldsneyti með ákveðnu hlutfalli af endurnýjanlegu eldsneyti blönduðu saman við, t.d. etanól eða metanól. Til að eldsneyti megi telja með í lágmarksorkugildinu þarf það að uppfylla skilyrði tilskipunarinnar um sjálfbæra framleiðslu. Eldsneytið skal uppfylla lágmarkskröfur um takmarkaða losun gróðurhúsalofttegunda samanborið við jarðefnaeldsneyti.

Auknar kröfur eru gerðar til fyrstu kynslóðar eldsneytis sem framleitt er úr orkuplöntum þar sem framleiðsla þess og landnotkun getur mögulega ógnað lífríki eða landi sem hefur mikla kolefnisbindingu, svo sem votlendi. Auk þess eru áhyggjur um að sú framleiðsla geti haft áhrif á fæðuöryggi þar sem framleiðsla orkuplantna getur þrengt að möguleikum fæðuframleiðslunnar. Það er því mjög mikilvægt að skilgreina sjálfbærniskröfurnar eða skilyrðin vel hér.

Annarrar kynslóðar eldsneyti, þ.e. eldsneyti sem framleitt er með sjálfbærum hætti t.d. úr úrgangi, annaðhvort lífrænum eða ólífrænum, fær tvöfalt vægi í markmiðinu enda ekki bundið fyrrgreindum annmörkum eldsneytis af fyrstu kynslóð. Eldsneytisaðilar þurfa að sýna fram á að endurnýjanlegt eldsneyti sem þeir selja hafi í raun endurnýjanlegan uppruna og að framleiðslan sé sjálfbær á allan hátt. Nánari reglur um skilyrði varðandi sjálfbærni, framleiðslu og kröfur til eldsneytissala um gagnaskil til eftirlitsaðila verða settar í reglugerð í samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneyti, þ.e. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið munu vinna saman að því og umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggja til fagþekkinguna varðandi skilgreiningar um sjálfbærni og annað því um líkt.

Frú forseti. Orkuskiptin verða með því hlutverk okkar allra sem erum á vegunum og nýtum samgöngutækin og það er líka mikilvægur þáttur málsins að virkja alla til meðvitundar um það. Sameiginlega stíga menn ákveðin skref í þeim efnum í gegnum vaxandi íblöndun í jarðefnaeldsneyti sem við sitjum sjálfsagt uppi með að nota einhver ár inn í framtíðina. Hér er eins og svo oft áður verið að hefja nýja vegferð og allar ferðir byrja á einu skrefi. Ég vænti þess að málinu verði vel tekið og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. atvinnuveganefndar.