141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Nú er mér vandi á höndum, ég kem á eftir Evrópusambandsmálinu og get tekið undir svo margt sem kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur en kem að því síðar því að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir beindi til mín fyrirspurn sem mér finnst rétt að svara strax.

Það er rétt að það var mikið fjallað um trúmál, um kristnina og fleira á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, og við skömmumst okkar ekkert fyrir það. Við í Sjálfstæðisflokknum erum ófeimin við að undirstrika að saga okkar og samfélagið er samofið kristninni í gegnum árhundruðin. Við skömmumst okkur ekki fyrir að segja að við viljum gjarnan að samfélag okkar byggi áfram á kristnum gildum. Með leyfi forseta segir meðal annars í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um trúmál:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi. Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um þjóðkirkju Íslands samkvæmt stjórnarskrá.

Landsfundur telur mikilvægt að ríkisvaldið standi full skil á félagsgjöldum (sóknargjöldum) þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga.“

Það er rétt að við ræddum þetta mikið og það kom út úr nefndinni að við vildum líka að kristin trú ætti að vera viðmið í lagasetningu. Mér fannst það persónulega algjörlega óásættanlegt. Ég hef verið mikill talsmaður þess að við segjum ófeimin: Já, við erum kristin þjóð sem byggjum á kristnum gildum. En þegar kemur að því sem snertir okkar ástkæru stjórnarskrá sem við sjálfstæðismenn höfum svo sannarlega barist fyrir að verja á þingi, þegar kemur meðal annars að trúfrelsiskaflanum, er óásættanlegt að yfir þau mörk verði farið. Við undirstrikum trúfrelsi í landinu, við undirstrikum þau merkilegu mannréttindi sem eru í gildandi stjórnarskrá og viljum standa vörð um þau. Eftir stendur að við erum ófeimin við að segja að við Íslendingar erum kristin þjóð.