141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Landsfundi Sjálfstæðisflokksins og VG hefur nokkuð borið á góma hér og full ástæða til að nota tækifærið og óska nýkjörinni forustu beggja flokka hjartanlega til hamingju með þeirra vandasama verkefni.

Sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn kaus um helgina að fækka svo valkostum sínum sem raun ber vitni hefur vakið mörgum undrun (Gripið fram í.) en það þarf ekkert að koma á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn skuli taka svo einbeitta stefnu á stjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn eins og raun ber vitni þegar horft er til þeirrar málefnastöðu sem flokkurinn hefur tekið sér.

Því miður virðist forustusveit hans nú ekkert hafa lært af hruninu. Hugur hans virðist fyrst og fremst standa til þess að hverfa aftur til þeirrar fortíðar sem hann þekkti fyrir hrun, helmingaskiptastjórnar með Framsóknarflokknum um verkefnin að lækka skatta, þegar ríkissjóður hefur ekki efni á því, bjóða ís fyrir alla og mamma borgar, þegar mamma hefur ekki efni á því, hverfa frá því að auka erlent samstarf Íslands sem að steðjar einangrunarhætta og boða stórfelld áform um sölu almenningseigna, þ.e. Landsvirkjunar — og hver veit nema þá langi líka til að komast í að einkavæða Landsbankann aftur?

Ég vona sannarlega að þessi sýn verði ekki ofan á næstu missirin í íslenskum stjórnmálum því að martröðin sem samstarf þessara tveggja flokka er í nýlegri sögu okkar er með þeim hætti að það er full ástæða til að varast hana. Það verður líka að efast um að sá ágæti miðjuflokkur Framsóknarflokkurinn sé jafnáfjáður í að verða hinn óvinsæli samstarfsaðili Sjálfstæðisflokksins í (Gripið fram í.) verkunum eins og hann áður var og hafði sína bitru reynslu af. (Gripið fram í.)