141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. ESB, stutt og laggott, auðvitað á að klára viðræðurnar og leyfa þjóðinni síðan að kjósa. Það er mín skoðun. (Gripið fram í.) Ég er í Sjálfstæðisflokknum og það dásamlega við frelsið er að það felur einmitt í sér umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra. (Gripið fram í.) Ég sætti mig við það að þetta varð niðurstaða [Hlátur í þingsal.] landsfundarins, en þetta er bara svona.

Ég bið menn einfaldlega að skoða heildarmyndina. Ef það er frjálslyndi að herða höftin sem aldrei fyrr, ef það er frjálslyndi að skilja við heilbrigðiskerfið þannig að það þurfi á rústabjörgun að halda, ef það er frjálslyndi að hækka skatta meira en 100 sinnum, ef það er frjálslyndi að brjóta stjórnsýslulögin bara út af hreinni og klárri pólitík, ef það er frjálslyndi að ráðherrar brjóti jafnréttislögin ítrekað, ef það er frjálslyndi að skila auðu í skuldamálum heimilanna og ef það er frjálslyndi að hafa það að markmiði að kollvarpa stjórnarskrá Íslands má hv. þm. Magnús Orri Schram eiga þetta frjálslyndi fyrir mér. (Gripið fram í: Það var lagið.)