141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

staða og uppbygging hjúkrunarrýma.

[14:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma í þessa umræðu við mig. Við í velferðarnefnd höfum í sameiningu reynt að setja okkur inn í stöðuna gagnvart þessu stóra máli, þ.e. uppbyggingu, biðlistum og þörf á frekari uppbyggingu hjúkrunarrýma til framtíðar á Íslandi. Meðal annars fórum við saman í ferð um Suðurland í haust og heimsóttum heilbrigðisstofnanir sem og hjúkrunarheimili. Víðast hvar um landið eru á þessum heimilum áform um frekari uppbyggingu í þá átt að bæta þá aðstöðu sem fyrir er frekar en að fjölga rýmum, þ.e. fjölga einbýlum o.s.frv. Auðvitað getum við ekki látið undir höfuð leggjast að horfa til framtíðar, þrátt fyrir að vissulega þurfi að laga það sem fyrir er og nota krafta í það, og átta okkur á því hver þörfin er og þá, þegar þær tölur eru komnar upp á borðið og liggja hér fyrir, átta okkur á því hvort og með hvaða hætti verði komið til móts við þá biðlista sem liggja fyrir og átta okkur jafnframt á því hvaða áhrif þessi staða hefur á starfsemi Landspítalans.

Það berast stöðugt fréttir af því að staðan á Landspítalanum sé erfið, bæði hvað varðar húsnæði og rými þar sem sjúklingar liggja á göngum o.s.frv. Þá spyr maður: Væri það til hagræðis fyrir starfsemi Landspítalans að fjölga hjúkrunarrýmum þannig að þeir sjúklingar sem eru á spítalanum gætu með sem mestu hraði farið inn í slík rými?

Nú liggja fyrir tölur um biðlistana. Í árslok 2012 voru 232 einstaklingar á bið eftir því að komast í hjúkrunarrými. Ég spyr hér einnar spurningar að gefnu tilefni: Eru inni í þessari tölu þeir einstaklingar sem eru nú þegar komnir inn í dvalarrými en bíða eftir því að komast inn í hjúkrunarrými? Samkvæmt upplýsingum sem ég hef úr mínu kjördæmi þar sem ég þekki best til er mikil skekkja í þessum tölum varðandi biðlistana.

Í tölum ráðuneytisins kemur fram að 29 einstaklingar í heilbrigðisumdæmi Suðurlands séu á bið eftir því að komast í hjúkrunarrými, en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér eru þeir 40. Ég tel að inn í þessar tölur vanti þá einstaklinga sem eru í dvalarrými en þurfa á hjúkrunarþjónustu að halda. Mig vantar upplýsingar frá hæstv. ráðherra um hvort myndin sem við erum að horfa á sé skökk vegna þess að bara í þessu eina umdæmi munar 11 einstaklingum. Það er mikill munur vegna þess að ef þetta er svona alls staðar annars staðar eru tölurnar sem við erum að vinna með ekki réttar.

Ég óska jafnframt eftir því að hæstv. ráðherra segi okkur frá því hvar þessi stóri vandi og það stóra verkefni að fara í frekari uppbyggingu er á forgangslistanum hjá okkur í heilbrigðismálunum. Við erum alltaf að tala um uppbyggingu á Landspítalanum og nýbyggingar þar og ég sé að í gær var lagt fram nýtt þingmál sem væntanlega er ætlunin að afgreiða einhvern tímann á þeim sjö og hálfa þingdegi sem eftir lifir þessa kjörtímabils. Ég spyr: Er verið að gera áætlun í ráðuneytinu um frekari uppbyggingu hjúkrunarrýma? Ef svo er, hvar er sú vinna stödd og hvenær mun hún birtast okkur í þinginu?

Þá er annað atriði sem hjúkrunarheimilin á landsbyggðinni horfa fram á, að það vantar sólarhringsrými fyrir fatlaða víðast hvar um landið. Því hafa heimilin neyðst til þess að vista unga fatlaða einstaklinga á hjúkrunardeildum þar sem fyrir eru eingöngu aldraðir einstaklingar. Við þekkjum dæmi um það á Suðurlandi þar sem nokkrir mikið fatlaðir ungir einstaklingar eru á hjúkrunardeildum, t.d. á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, og hafa verið þar lengi. Við sjáum ekki fram á að nein önnur úrræði séu að koma í staðinn. Í einhverjum tilvikum hafa þessir einstaklingar dvalið á heilbrigðisstofnunum, þ.e. spítölum, áður en þeir komust inn í þessi pláss á hjúkrunarheimilunum.

Þetta er verkefni sem við þurfum að horfast í augu við og forgangsraða. Ég tel að uppbygging hjúkrunarrýma eigi að vera fremst á listanum okkar þegar við horfum til framtíðar varðandi (Forseti hringir.) uppbyggingu í heilbrigðismálum.