141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

staða og uppbygging hjúkrunarrýma.

[14:26]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir þessa umræðu. Það sem mér hefur kannski fundist skemmtilegt við þennan vinnustað er að við erum sífellt að tala um hluti sem skipta okkur hvert og eitt máli og öðlast þekkingu og reynslu með því að hlusta á þá umræðu sem fram fer. Ég get ekki sagt að þetta sé sá málaflokkur sem ég hef haft mestan áhuga á en ég tel að þetta sé málaflokkur þar sem við getum gert miklu meira en við höfum verið að gera.

Umræðan nú og áður hefur mjög mikið beinst að áherslu á steypuna. Við ræðum hvernig við getum farið úr þrí- og fjórbýlum, það skiptir máli að fara yfir í einbýlin. En þegar ég fór að kynna mér í meira mæli það sem er að gerast í nágrannalöndunum uppgötvaði ég að menn hafa að sjálfsögðu verið að leggja áherslu á þau sjálfsögðu mannréttindi að fólk geti verið í einbýli en menn hafa líka í meira mæli verið að leggja áherslu á nýtingu tækni, það sem kallast velferðartækni, til að tryggja að fólk geti búið heima hjá sér eins lengi og hægt er.

Í Noregi og líka í Svíþjóð var nýlega unnin áhugaverð vinna varðandi uppbyggingu á velferðartækni. Einfalt dæmi um algengustu tegund af velferðartækni sem aldraðir eru að nota er öryggishnappurinn sem er einfalt tæki til að auðvelda fólki að vera heima eins lengi og hægt er. Og ég tel að við verðum að leggja áherslu á það samhliða. Við verðum líka að tryggja að þegar við erum að gera þessa breytingu, að fara yfir í einbýlin, séum við ekki samhliða að draga úr þjónustunni með fækkun á hjúkrunarrýmum, skoða hvort við getum nýtt húsnæðið, þá fjárfestingu sem við höfum þegar farið í. Dæmi um húsnæði sem nú stendur autt (Forseti hringir.) í Suðvesturkjördæmi, það voru að vísu spítalar, eru St. Jósefsspítali og Vífilsstaðir. Við heyrum líka umræðuna varðandi Sólvang í Hafnarfirði, (Forseti hringir.) að þar verði hugsanlega lokað. Ég tel að við verðum að hafa (Forseti hringir.) framtíðarsýn (Forseti hringir.) og horfa á þetta á heildstæðari hátt en gert hefur verið hingað til.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að virða ræðutímann.)