141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Rétt áðan vorum við að ræða um hjúkrunarrými. Hæstv. velferðarráðherra endaði ræðu sína á því að segja að það kostaði mikla peninga að byggja upp hjúkrunarrými, sem eru nauðsynleg, og við þyrftum því að tala varlega.

Ég ætla að spyrja, virðulegi forseti: Ætlar þingheimur að afgreiða þetta frumvarp sem kostar ríkissjóð 875 milljónir á ári? (Gripið fram í: Það er bara svona.) Hvað eftir annað hefur verið spurt að því hvaðan eigi að taka þá peninga en það eru engin svör. Er mönnum full alvara? Er þetta forgangsröðin? 875 milljónir á ári í Ríkisútvarpið. Ekki í Landspítalann, ekki í að byggja upp hjúkrunarrýmin, ekki í löggæsluna, nei, í Ríkisútvarpið. (Gripið fram í: Guð minn almáttugur.)

Virðulegi forseti. Þetta mál er að fara í nefnd og ég rétt leyfi mér að vona — og ég hef gaman af að heyra hv. stjórnarliða gera lítið úr þessu, (Forseti hringir.) það er bara gott, en ég ætlast til að fá svör við því á milli umræðna hvar menn ætla að sækja þessa peninga.