141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ýta neitt sérstaklega undir væntingar hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur en það er hins vegar rétt að við vonumst til þess að málið fái einhverja umfjöllun milli umræðna í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég á ekki sæti í nefndinni en eftir að hafa kynnt mér málið, eftir því sem ég hef átt kost á, er ég þeirrar skoðunar að það nái ekki tilgangi sínum að bæta samkeppnisumhverfið á þessu sviði, að það nái ekki þeim tilgangi sínum að gera með skýrari hætti greinarmun á fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og annarri starfsemi. Burtséð frá því hvaða skoðun menn kunna að hafa á því hvort hér eigi að vera ríkisútvarp eða ekki held ég að ekki sé um gott frumvarp að ræða, það er ekki vel úr garði gert. Fjármögnun er í ófullnægjandi stöðu. Stjórnskipulag í rugli. Með algjörlega ófullnægjandi hætti er reynt að skilgreina fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu; það er svo vítt skilgreint að allt fellur þar undir, öll fjölmiðlun fellur þar undir, þannig að enginn greinarmunur er gerður á samkeppnisstarfsemi og annarri starfsemi. Hvað sem manni finnst um (Forseti hringir.) ríkisútvarp sem slíkt þá er þetta frumvarp ekki tækt eins og það er í dag en vonandi lagast það milli umræðna.