141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er leitt að spilla gleðinni en verði frumvarpið samþykkt liggur fyrir að ríkisútgjöld munu aukast um 900 millj. kr., eða 875 millj. kr. svo að maður sé nákvæmur. Það er líka ljóst að í þessu frumvarpi eru ákvæði sem draga úr möguleikum Ríkisútvarpsins til að afla tekna á auglýsingamarkaði, það eru 365 millj. kr. Ef við erum sanngjörn þá eykur þetta útgjöldin úr ríkissjóði, umfram það sem dregið er úr tekjumöguleikum Ríkisútvarpsins, um hálfan milljarð króna. Þingmenn geta síðan komið hingað með háreysti og talað um að menn séu á móti ákveðnum hlutum. Á ég þá að standa hér og segja að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sé á móti Landspítalanum eða á móti því sem þarf að gera í löggæslu? Þetta er ekki þannig.

Þetta fjallar um forgangsröðun ríkisfjármála. Það er nefnilega greitt úr sama ríkissjóðnum fyrir reksturinn á Ríkisútvarpinu og fyrir reksturinn á Landspítalanum. Þetta fjallar ekkert um annað en það. Ég bind miklar vonir við og hef væntingar um að farið verði yfir málið milli 2. og 3. umr. og þeirri (Forseti hringir.) eðlilegu spurningu verði svarað hvað krefjist þess að ríkisútgjöld séu aukin um 500 millj. kr. til að reka Ríkisútvarpið frekar en Landspítalann.