141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:55]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þeir sem einungis hlýða á þessa 4. umr. um ríkisútvarpsfrumvarpið hljóta að undrast og sérstaklega ef þeir hafa ekki vitað um afstöðu Sjálfstæðisflokksins fyrr í þessu máli, nefnilega á síðasta áratug þegar líka var mikið rætt um Ríkisútvarpið. Ég verð að segja að ég hélt að hv. þm. Birgir Ármannsson hefði fengið að láni ræðu eftir sjálfan mig, sem ég flutti fyrir fimm til tíu árum um frumvarp hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur því að það voru mjög svipaðar röksemdir sem ég var með þá og hann nú. Ég vona að þetta frumvarp sé betra en það frumvarp sem þá var flutt enda er það leiðrétting á því frumvarpi. En við verðum að sjá aumur á Sjálfstæðisflokknum og þeim sem hér tala fyrir hann því að þeir eru að koma út frá landsfundi þar sem landsfundinum tókst að vera á móti a. Ríkisútvarpinu, b. náttúruvernd og c. kristnum gildum. En við hin, við styðjum a. Ríkisútvarpið, b. náttúruvernd og c. kristin gildi. [Hlátur í þingsal.]