141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

aukin áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs.

62. mál
[15:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil gera mitt til að vonir hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur rætist í þessu máli og reyndar flestum öðrum, þó ekki öllum. En ég tel sjálfsagt að samþykkja þessa þingsályktunartillögu, m.a. með þeim rökum sem hv. þingmaður flutti hér og formaður utanríkismálanefndar. Ég minni jafnframt á að þessi tillaga er mjög í anda þeirra hugmynda sem komu fram í skýrslu Evrópunefndar sem Björn Bjarnason veitti forstöðu á sínum tíma og við nokkrir þingmenn sátum í. Ég vil samt sem áður líka vekja eftirtekt hv. þings á því að Norðmenn hafa með ærnum tilkostnaði reynt að efla sín áhrif í Brussel með þeim hætti sem t.d. er lagt til í þessari tillögu. Á því var gerð mjög góð úttekt í Sejersted-skýrslunni. Niðurstaðan var því miður ekki með þeim hætti sem þeir vonuðust til. Eigi að síður tel ég þetta jákvætt og þetta er að minnsta kosti góð tilraun af okkar hálfu. En eins og hv. þingmenn vita vil ég leysa þetta vandamál með öðrum hætti.