141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

sameining rannsóknarnefnda í rannsóknarnefnd samgönguslysa.

609. mál
[15:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér finnst gott að hv. þingmaður veki athygli á þessu. Ég held að umræðan um þetta mál hafi farið fram á tímum þar sem menn tóku lítið eftir. Ég tek það fram að ég fylgdist með umræðunni en fékk ekki ein einustu rök frá stjórnarliðum um það af hverju ætti að gera þetta. Og svo að þingheimur sé upplýstur um það og það sé alveg skýrt þá er hér um það að ræða að sameina rannsóknarnefndir. Vanalega er það þannig þegar menn fara í sameiningar að það er annaðhvort gert á faglegum eða fjárhagslegum forsendum eða hvort tveggja. Í umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram að þetta nýja fyrirkomulag er ekki ódýrara svo ekki er þetta gert á fjárhagslegum forsendum. Hv. þingmaður hefur farið yfir það að þeir aðilar sem ekki bara gerst þekkja heldur vinna líka að þessum málum hafi lagst gegn frumvarpinu. Er það réttur skilningur, virðulegi forseti? Ég vil að hv. þingmaður staðfesti það.

Það er kannski ekki hlutverk hv. þingmanns en ég vil samt spyrja hvort hann geti gefið einhverjar skýringar á því af hverju í ósköpunum þetta mál hafi verið sett í forgang. Þau mál sem við erum að samþykkja núna, virðulegi forseti, eru mál sem ríkisstjórnin setur í forgang. Hv. þingmaður benti á hvaða mál við erum ekki að taka fyrir á þessum tímapunkti. Þetta mál er hins vegar forgangsmál hjá ríkisstjórninni. Ég er ekki að gera hv. þingmann ábyrgan en vil bara spyrja hvort hann hafi einhverja hugmynd um það af hverju í ósköpunum þetta mál er forgangsmál hjá ríkisstjórninni.