141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hér erum við að tala um mjög stórt mál. Þau verða almennt ekki öllu stærri en þó sérstaklega eru þau mikilvæg núna vegna þess að í fjármálakerfinu hafa verið, eru og verða, því miður, á næstunni mörg úrlausnarefni sem tengjast skuldavanda heimila og fyrirtækja. Hér erum við að ræða um neytendalán, en þau tengjast því stóra verkefni sem er neytendavernd á fjármálamarkaði.

Virðulegi forseti. Ég er núna í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og þar á undan hv. viðskiptanefnd. Ég ætla ekki að segja að það hafi verið á hverjum einasta fundi en á þessu kjörtímabili hefur oftast verið rætt um eitthvað sem tengist neytendavernd á fjármálamarkaði. Við erum búin að fá tugi manna á fund til þess að ræða þetta og allir eru sammála um að neytendavernd á íslenskum fjármálamarkaði sé mjög ábótavant og standist ekki samanburð við aðrar þjóðir. Á henni eru augljósir annmarkar sem allir eru sammála um, t.d. sá að enginn veit hvar neytendaverndin er, hvaða opinbera stofnun beri ábyrgð á neytendavernd. Menn hafa bent á Neytendastofu, talsmann neytenda, Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og jafnvel fleiri aðila. Það hefur komið fram í nefndinni að allir hafa sitt lítið af hverju. Samt sem áður hefur ekkert miðað í þá átt að koma þessu á einn stað þar sem ábyrgðin er skýr og þar sem fólk getur fengið úrlausn sinna mála.

Einhver kynni að spyrja: Er þetta tæknilegt mál sem litlu skiptir? Nei, virðulegi forseti, og þetta hefur kannski komið berlegast í ljós eftir að gengistryggðu lánin voru dæmd ólögmæt svo við tökum bara eitt af málunum, en mjög skýrt dæmi. Í kjölfar þess komu upp allra handa álitaefni. Þar sem við erum ekki með neytendaverndina vel skilgreinda hefur verið erfitt fyrir það fólk sem telur á sér brotið að fá aðstoð. Í það minnsta hefur hún ekki verið nægilega markviss. Ég held að ég taki ekki of stórt upp í mig þegar ég segi það.

Ég held að flestir þingmenn hafi fundið það á fjölmörgum tölvupóstum, samtölum, símhringingum og viðtölum sem við höfum fengið í tengslum við þetta að fólk þarf eitt og sér að takast á við stóru fjármálafyrirtækin um meðferð sinna mála. Það er ójafn leikur. Þeir sem hafa skoðað það eða lent í því að þurfa að leita aðstoðar lögmanna vita að eðli málsins samkvæmt kostar það peninga, það kostar meira að segja mikla peninga. Menn eru kannski í erfiðustu stöðunni til að leggja slíkt út akkúrat þegar þeir standa í þessum málum. Einstaklingur sem er í skuldavanda og telur fjármálafyrirtækið brjóta á sér hefur svo sannarlega heimild til þess, sem betur fer, í réttarríkinu að sækja til lögfræðings en hann er væntanlega aldrei í verri stöðu til að sækja til lögfræðings og leggja út fyrir þeim kostnaði en þegar hann er í skuldavanda. Skuldavandi þýðir almennt að menn eru í fjárhagserfiðleikum. Þess vegna eru menn með öfluga neytendavernd í flestum löndum til að jafna þennan leik. Fjármálafyrirtækin geta farið í sína mjög djúpu vasa þegar þau takast á um þessi mál. Einstaklingar og smærri fyrirtæki eru í mjög erfiðri stöðu og staðan er mjög ójöfn.

Þetta vitum við og höfum vitað. En hvað hefur ríkisstjórnin gert í þessu? Ekkert. Enginn getur haldið því fram að ekki hafi verið vakin athygli á þessu máli. Enginn hefur haldið því fram að það sé óeining um stöðumatið, það eru allir sammála um það.

Nú kynni einhver að segja: Vantar ekki bara framlög? Vantar ekki ríkisframlög í eftirlitsiðnaðinn? Nei, virðulegi forseti, það sem búið er að gera á þessu kjörtímabili er að stórauka framlög til fjármálaeftirlits. Bara til að setja það í eitthvert samhengi er íslenska bankakerfið 8% af því danska. Íslenska Fjármálaeftirlitið sem hefur fengið aukninguna er 43% af því danska. Við erum með 8% af danska bankakerfinu en Fjármálaeftirlitið er 43% af því danska. Þá kynni einhver að segja: Heyrðu, bíddu, við Íslendingar lentum í alþjóðlegu bankahruni en ekki Danir. Það er ekki rétt, Danir lentu ansi hressilega í því líka sem er svolítið sérstakt af því að þeir bæði gagnrýndu okkur og ráðlögðu okkur mjög skarpt en gleymdu kannski að skoða það sem var að gerast heima hjá þeim. Það er aukaatriði, virðulegi forseti, það er ekkert til að gleðjast yfir þegar vinir okkar og frændur, Danir, lenda í vandræðum.

Aðalatriðið er að þegar menn fóru í að stórauka fjármálaeftirlit í víðri merkingu þess orðs var áherslan ekki þar sem hún átti að vera — á neytendavernd. Þess vegna lendum við sí og æ í allra handa vandræðum. Þegar ég segi „okkur“ er ég að tala um íslenska þjóð. Sem betur fer eru ekki allir í fjárhagserfiðleikum, sem betur eru ekki allir í skuldamálum en ef menn eru þar eru þeir í mjög erfiðum málum, alltaf eðli máls samkvæmt, en sérstaklega erfiðum málum á Íslandi vegna þess að neytendaverndin er í molum. Mörg dæmi eru um það. Stærsta einstaka málið og kannski mest áberandi í þessari fjölmiðlun er málefni viðskiptavina Dróma. Þar var farin sérkennileg leið sem engin skýring hefur fengist á, þegar starfsleyfið var tekið af Frjálsa fjárfestingarbankanum og Spron og þau félög farin í þrot var útlánum og innlánum skipt upp. Innlánin voru sett í Arion banka og í meðgjöf fékk Arion banki ríkistryggt skuldabréf með miklum vaxtamun miðað við innlánin þannig að þetta er meðgjöf til Arion banka upp á milljarða á ári. Útlánin fóru hins vegar í sérstakt einkahlutafélag. Viðskiptavinir Dróma halda því fram að þeir fái öðruvísi fyrirgreiðslu og afgreiðslu en viðskiptavinir annarra fjármálastofnana.

Sumir stjórnmálamenn hafa haft um þetta stór orð, enginn stærri en hæstv. forsætisráðherra sem lofaði að gera eitthvað í þessu 22. nóvember 2012 en hefur upplýst að hún sé enn þá að vinna í málinu og óvíst hvenær niðurstaða kemst í það.

Ég ætla ekki að fullyrða um einstök mál, virðulegi forseti, en svo mikið er víst að í þessu tilfelli eru mjög miklar líkur á því að það sé verra fyrir viðskiptavini að eiga við einkahlutafélag sem ætlar að hætta starfsemi þegar það er búið að gera upp sinn reikning og þarf að auki að standa skil á skuldabréfum með háum vöxtum til annarrar fjármálastofnunar. Það eru miklar líkur á því að þessir aðilar séu harðari í horn að taka en almennir viðskiptabankar. Heilbrigð skynsemi segir okkur það.

Þá erum við komin að því að það fólk sem þarna telur á sér brotið á lítið skjól í neytendaverndinni eða þeim embættum sem þar eru. Þrátt fyrir að stofnanirnar séu margar er illa skilgreint hvar neytendaverndin á að vera og allir eru sammála um það.

Þrátt fyrir að maður fagni því að ýmislegt gott kemur fram í þessu frumvarpi erum við enn ekki að taka á þessum málum. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég skil ekki af hverju það er. Eftir alla umræðuna sem er búin að vera í nefndinni, þjóðfélaginu og á þinginu erum við enn á þeim stað að ríkisstjórninni hefur ekki tekist að ganga í þetta mál sem er forgangsmál og tengist títtnefndum skuldavanda heimilanna og smærri fyrirtækja. Það er alveg sama hvernig maður veltir því fyrir sér, maður getur ekki skilið af hverju. Það er fullkomlega útilokað að átta sig á því.

Hér erum við með frumvarp um neytendalán og í því kemur fram að Neytendastofu er ætlað að annast framkvæmd og eftirlit með ákvæðum frumvarpsins. Það kemur líka fram að hana skorti fjárheimildir til að rækja það hlutverk sitt. Það er áhugavert, virðulegi forseti. Eftir allan þennan tíma og þessa umræðu erum við komin hér með frumvarp sem á að bæta hag neytenda, og gerir það örugglega á einhverjum sviðum, en sá aðili sem á að sjá til þess að lögin séu framkvæmd, sem á að vera skjólið fyrir fólkið, segir: Já, vissulega á okkar stofnun að gera það en við höfum engin tök á að framfylgja því vegna þess að það eru engar fjárheimildir.

Fjárheimildirnar eru víst til staðar, gríðarlega háar upphæðir fara í Fjármálaeftirlitið og umboðsmann skuldara en þetta frumvarp er skýrt dæmi um að við náum ekki þeim markmiðum sem ég held að við höfum öll um að hafa öfluga neytendavernd á fjármálamarkaði.

Það sem mér finnst best í þessu frumvarpi er að það er verið að auka upplýsingagjöf til lántakenda. Alveg sama hvað mönnum finnst um einstök lánaform, verðtryggingu, óverðtryggð lán og hvað sem er held ég að við séum öll sammála um það grundvallaratriði að við verðum að auka upplýsingagjöf og bæta fjármálalæsi.

Mér finnst það koma svo skýrt fram, m.a. í nefndarálitinu, hversu stór vandinn er. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að það sé hámark á hlutfallstölu kostnaðar og í einni framhaldsumsögninni var lagt til, með leyfi forseta, „að hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar verði 75% svo ekki verði röskun á ríkjandi viðskiptaháttum sem sátt ríkir um“.

Hér er vísað til þess, virðulegi forseti, að Samtök fjármálafyrirtækja tilgreindu hina ýmsu lánaflokka sem tengjast alla jafna lágum upphæðum og allra handa lánum, eins og kortalánum, lánum sem heita vaxtalaus lán og ýmislegt annað. Þau telja að 50% þak á hlutfallstölu sé allt of lágt. Ég spyr, virðulegi forseti: Er fólk meðvitað um að þegar það tekur eitthvað sem heitir vaxtalaust lán sé kostnaðurinn meiri en 50%? Er fólk meðvitað um það? Ég held ekki. Ég ætla ekkert að ráðast á neinn eða gagnrýna einn eða neinn, en ég vek athygli á því að það er eitthvað að í okkar þjóðfélagi þegar vaxtalaust lán er með 71,27% vöxtum þegar allt er tekið með. Það er vaxtalausa lánið.

Það þarf ekki eftirlitsstofnanirnar til. Ef fólk væri meðvitaðra um þessa hluti, fjármálalæsi betra, við værum meira á vaktinni, öll, held ég að ekki væri eftirspurn eftir svona lánafyrirgreiðslu. Það segir sig sjálft að við þurfum að snúa hér við blaðinu. Við þurfum að snúa við menningunni í þessu efni í þjóðfélagi okkar, að við leggjum meira upp úr því að spara fyrir hlutunum en að taka lán. Þegar við hins vegar tökum lán getum við ekki séð að sátt ríki um hlutfallslegan árlegan kostnað upp á tugi prósenta, hátt upp í 75%, að það þyki eðlilegasta mál í heimi. Þegar svo er komið fyrir okkur þurfum við að taka okkur á sem þjóð.

Vonandi fækkar þetta frumvarp, verði það að lögum, dýrum skammtímalánum, bara dýrum lánum almennt en einna helst dýrum skammtímalánum, og verður sömuleiðis til þess að fólk verði meðvitaðra um þær skuldbindingar sem það tekur á sig þegar það tekur lán.

Það sem ég hef áhyggjur af og snýr að okkur, hv. alþingismönnum, er að við förum of geyst með þetta mál. Við gætum gert mistök vegna þess að við fáum inn í nefndina upplýsingar um að hugsanlega sé framkvæmd á verðtryggðum lánum ábótavant.

Ég biðst velvirðingar en ég man aldrei eftirnafnið á henni Elviru sem er nú landsþekkt. (Gripið fram í: Mendez.) Nú man ég það, Mendez, það kom bara skyndilega. Við hv. þm. Pétur H. Blöndal báðum um að hún kæmi fyrir nefndina eftir að hún fékk þetta bréf frá sérfræðingi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um framkvæmd laganna. Það var mjög upplýsandi. Í gærkvöldi tilkynnti hæstv. utanríkisráðherra hér og lagði fram í þinginu tilskipun Evrópusambandsins um neytendalán. Þetta hvort tveggja segir mér að við þyrftum að fara vel yfir þetta. Ég er ekki að segja að við eigum ekki að klára þetta fyrir vorið, ég er hins vegar að segja að ef við gerum mistök á þessu sviði, og ef hv. þingmenn hafa gert mistök á þessu sviði í fortíðinni, getur það kostað mjög mikið. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það. Það er líka ábyrgðarhluti að búa til væntingar hjá almenningi um að hér séu á leiðinni dómar sem verða síðan ekki, dómar sem geri það að verkum að verðtryggingin verði dæmd ólögmæt og margir muni fá mikla afslætti á verðtryggðum lánum sínum.

Eins og ég skildi Elviru Mendez snýst þetta um hina almennu reglu að ekki má setja meiri kostnað en þann sem er tilgreindur þegar lán er selt ef þannig má að orði komast. Þetta er einföldun. Ef ég fæ lán hjá hv. þm. Helga Hjörvar og hann tilgreinir einhvern lántökukostnað, vexti og annað slíkt, er lánveitandanum ekki heimilt að rukka meiri kostnað. Í prinsippinu snýst þetta um framkvæmd verðtryggingarinnar, ef ég skil það mál rétt, þannig að þeir sem telja að hún hafi verið framkvæmd með röngum hætti segja að ekki hafi allur kostnaðurinn verið tilgreindur. Ef ég hefði til dæmis fengið verðtryggt lán hjá hv. þm. Helga Hjörvar og hann sýnt verðbólguna 2,5% um lánstímann og síðan hefði verðbólgan verið meiri og ég þurft að greiða meiri kostnað var hv. þingmanni ekki heimilt að taka meiri kostnað en sem nemur 2,5%.

Ef ég skil málið rétt er þetta það sem málið snýst um. Í raun þyrfti ekki evrópska tilskipun þar um. Eftir því sem ég best veit hefur það verið lengi í íslenskum lögum að ekki megi innheimta meiri kostnað en tilgreindur er þegar varan er fengin, ef þannig má að orði komast. Það er erfitt að segja að varan sé keypt. Það er í samræmi við almenna neytendavernd að varan má ekki vera svikin, alveg sama hver hún er.

Við erum hér að taka á máli sem er mjög mikilvægt fyrir alla aðila. Við göngum vonandi frá lögum sem gera það að verkum að við þurfum ekki að sjá ástand eins og er núna. Það hagnast enginn á því að hafa ástand eins og er núna í þjóðfélaginu þar sem eru endalausar deilur um framkvæmd lánasamninga, útreikninga o.s.frv.

Grunnur þessara deilna er kannski kominn til af því að menn skildu lögin ekki nógu vel. Ég held að það sé einfalda útgáfan af þessu. Ég held að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að þeir sem veittu gengistryggð lán hjá fjármálafyrirtækjunum skildu ekki lögin einhverra hluta vegna. Það er auðvitað svolítið sérstakt.

Það sem ég hef áhyggjur af er það sem kom fram í máli eins umsagnaraðila sem hefur lagt mikla áherslu á að kenna almenningi fjármálalæsi. Hann benti á að fyrirliggjandi frumvarp er ekki nógu einfalt, það er ekki nógu skýrt. Mér finnst áherslurnar í uppbyggingu á fjármálaeftirliti á Íslandi á undanförnum árum hafa verið rangar og ég gef engan afslátt af því. Mér finnst fyrir neðan allar hellur, ómarkvisst, illa unnið og koma niður á öllum aðilum að ekki skuli hafa verið lögð almennileg áhersla á neytendavernd en það breytir því samt ekki að hver og einn ber ábyrgð á sjálfum sér. Það er afskaplega mikilvægt að þær reglur sem eru til staðar séu skýrar. Reglurnar sem við erum að leggja upp um neytendalán eiga að vera í þessu frumvarpi. Þær verða helst að vera þannig úr garði gerðar að allir skilji þær. Stór hópur fólks þarf á lánafyrirgreiðslu að halda og þetta er yfirgnæfandi þáttur í lífi fólks. Það er hlutverk okkar að ganga þannig fram að lagatextinn og leiðbeiningar með honum séu eins skýrar og mögulegt er.

Við munum ekki í lögum eins og þessum frekar en öðrum lögum koma alveg í veg fyrir vanda í þjóðfélaginu. Við getum ekki alfarið komið í veg fyrir mistök, svo gott er það ekki. Við erum á þeim stað að við getum ekkert gert í því að ríkisstjórnin hafi klúðrað því að byggja upp neytendavernd. Sem betur fer er þessi ríkisstjórn að fara og ekkert meira um það mál að segja í bili þó að ég haldi að það skipti máli að fá leiðsögn og skýr skilaboð frá nefndinni hvað það varðar. Núna erum við með sjónarmið sérfræðings Evrópusambandsins sem er enginn dómur en samt sjónarmið sem vert er að fara vel yfir. Við erum sömuleiðis með tilskipunina sem hæstv. utanríkisráðherra talaði fyrir í gær. Ég tel afskaplega mikilvægt að við förum vel yfir þessa þætti á milli umræðna og girðum eins vel og við mögulega getum fyrir öll mistök á þessu sviði. Sömuleiðis þurfum við kannski að taka lögin upp eftir nokkra mánuði því að svo sannarlega verða næg verkefni næsta haust þegar nýtt þing kemur saman.

Samstarf í nefndinni hefur verið gott. Forusta hv. þm. Helga Hjörvars hefur verið með þeim hætti að það hefur verið mjög lítill ágreiningur um vinnulag og slíkt. Ég held að það sé nokkurt einsdæmi í þinginu miðað við það sem maður heyrir úr öðrum nefndum. Það er í það minnsta ekki almenna reglan. Ég er ekki að gagnrýna það. (Gripið fram í.) Það sem ég er að segja er að það væri þess vegna góður bragur, ef við náum að klára þetta mál, að við gerðum það þannig að góð samstaða gæti verið um það og við gætum verið nokkuð viss um að við værum búin að gera eins vel og við getum í þessum afar mikilvæga málaflokki.