141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er rétt sem fram kom í máli hans að hæstv. utanríkisráðherra mælti í gær fyrir máli er varðar Evróputilskipun á þessu sviði, enda löggjöfin því tengd. Og er ánægjulegt að geta upplýst það að á fundi utanríkismálanefndar í morgun var því máli vísað til umsagnar hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem mun þá taka það fyrst fyrir á fundi síðar í dag og fjalla um það um leið og fjallað verður um lögin um neytendalán milli 2. og 3. umr. Þar tel ég að mikilvægast sé að nefndin fari yfir það með hvaða hætti rétt sé að gera neytandanum grein fyrir því þegar verðbólga breytist eða breytilegir vextir breytast þannig að lántökukostnaður hækki, hvaða fyrirvara neytandinn á að hafa á slíkum tilkynningum og hvernig á að tilkynna honum það.

Vegna umræðunnar um neytendavernd almennt á fjármálamarkaði vildi ég inna hv. þingmann eftir afstöðu hans til þess hvernig þeim málum væri best fyrir komið. Í skýrslum á vegum stjórnvalda hafa komið fram hugmyndir um að réttast væri að eftirlitið með kerfinu sjálfu, bankakerfinu og kerfisáhættunni í því, yrði flutt til Seðlabankans með einum eða öðrum hætti, en að Fjármálaeftirlitið legði áherslu á neytendaverndina og þá þætti sem snúa að einstaklingunum og einstökum málum. Spurning hvort það sé hugnanlegt fyrirkomulag fyrir hv. þingmann eða hvort það sé á einhverjum öðrum stað sem hv. þingmaður telur að best sé að safna saman þeim verkefnum sem lúta að eftirliti með fjármálakerfinu í þágu neytenda og neytendavernd almennt.