141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[16:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fróðlega og yfirgripsmikla framsögu fyrir nefndaráliti sínu og sinna venslamanna. Það er tvennt sem ég vildi spyrja hann um.

Hv. þingmaður færir fram staðreyndir sem sýna að íslenska bankakerfið er bara 8% af danska bankakerfinu, en hins vegar er íslenska fjármálaeftirlitið 43% af hinu danska. Þá er spurning mín þessi: Telur hv. þingmaður að of mikið fjármagn sé veitt til þess að hafa eftirlit með íslenska fjármálakerfinu? Vill hann draga úr því?

Í annan stað langar mig til að spyrja hv. þingmann hvernig hann vilji efla neytendaverndina. Það var ekki alveg ljóst af máli hans með hvaða hætti hann sér fyrir sér að henni sé best fyrir komið. Hv. þingmaður undirstrikaði það að hann væri ekki einu sinni viss um hvar hún ætti heima í kerfinu í dag. Mér fannst hann færa fyrir því hálfgildings rök að ekki væri nú kannski rétt að taka hana undir Fjármálaeftirlitið. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann: Vill hann setja upp sérstaka stofnun til að sinna neytendavernd?