141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[17:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit hv. efnahags- og viðskiptanefndar um neytendalán, það er 220. mál þingsins. Ég skrifa undir nefndarálit 1. minni hluta nefndarinnar. Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á því að hafa ekki nefnt innlán sem hluta af neytendavernd á fjármálamarkaði, þau eru vissulega mikið atriði fyrir heimilin í landinu. Sem betur fer spara einhver heimili enn þá og sá sparnaður er að 60–70% óverðtryggður og það fólk tapar. Allir vextir á innlánum á þeim markaði eru neikvæðir í núverandi verðbólgu eftir skatt, þeir eru fyrst skattaðir um 20% en eftir skattinn eru þeir neikvæðir og þeir sem sýna ráðdeild og sparsemi tapa. Þannig hefur það verið lengi og þannig var það sérstaklega í hruninu; þeir sem voru með óverðtryggða reikninga töpuðu óhemjumikið í hruninu vegna þess að vextir á innlánum hafa eiginlega aldrei náð verðbólgu. Eftir 20% skattlagningu eru þeir vonlausir, glataðir. Á stuttum tíma rýrna innstæðurnar um helming miðað við það að menn hafi keypt sér bíl eða eitthvað fyrir innlánin eða t.d. farið til útlanda. Maður sem hætti við ferð til útlanda fyrir hrun og ákvað að fresta því um fimm ár og leggja fyrir í banka, gerir það ekki í dag, hann fer ekki í neina ferð til útlanda í dag. Þetta sýnir hvernig þeim er refsað sem sýna sparnað og ráðdeild. Ég má til með að geta þess að sá hópur á að sjálfsögðu að heyra undir fjármálaeftirlit, fjármálaráðgjöf og neytendavernd á fjármálamarkaði.

Varðandi það hvar vista skuli neytendavernd á fjármálamarkaði, sem illilega er þörf á — við horfum upp á ótrúlegustu tölur. Ég nefni bara gengislánin sem kom í ljós að voru bara 10 þús. íbúðalán og að ég held 40 þús. bílalán. Þau voru gengistryggð og reyndust vera ólög. Það ber vott um mjög slaka neytendavernd að þau skuli hafa viðgengist í mörg ár án þess að nokkur tæki eftir því að þau væru ólögleg. Auðvitað græðir þetta fólk á því vegna þess að það fær lán núna eftir síðustu niðurstöðu Hæstaréttar, ekki hæstv. ríkisstjórnar, kannski með 3–4% vöxtum og óverðtryggt þar til það er gert upp. Það eru sennilega hagstæðustu lán í Íslandssögunni, ég hef ekki kannað það nákvæmlega. Það veldur svo félagslegri spennu gagnvart hinum sem voru varkárari og tóku innlend lán því að gífurleg áhætta væri fólgin í því að taka lán sem menn töldu margir hverjir að væru bundin og í rauninni gengislán en ekki gengistryggð lán.

Síðan hef ég heyrt af því að hringt hafi verið í fólk, sérstaklega eldra fólk sem átti innstæður í bönkum, kannski allan sparnaðinnsinn, og því sagt að það væri óskaplega sniðugt að kaupa hlutabréf í viðkomandi banka því að það væri óskaplega mikill og gulltryggður vöxtur í honum. Þessi símtöl eru væntanlega skráð einhvers staðar, ég hef heyrt af þeim en get ekki staðfest það nákvæmlega, en það er náttúrlega mjög slæmt ef það reynist rétt. (Gripið fram í.) En það sem liggur á borðinu eru stofnfjárbréfin sem fólk var fengið til að kaupa í sparisjóðum viðkomandi héraðs. Margir notuðu til þess sparnaðinn sinn, alla innstæðuna sem hvarf bara. Aðrir tóku lán. Það hefur nú verið fellt niður að einhverju leyti hjá þeim sem ekki gátu borgað. Ég veit ekki hvað verður um þá sem voru með lán og innstæður samtímis, hvort lánin voru látin ganga á innstæður þeirra, það væri rökrétt miðað við þá sem lögðu fram innstæðuna sjálfa. Það var gert í stórum stíl um allt land og mikið í sveitum landsins þar sem höfðað var til átthagaástar og talað um sparisjóð í héraði o.s.frv. Það liggur fyrir.

Svo voru mjög margir beðnir um að kaupa hlutabréf í viðkomandi fyrirtæki á grundvelli laga sem Alþingi hafði samþykkt eftir beiðni frá ESA um að heimilt væri að lána starfsmönnum og tengdum aðilum fé til kaupa á hlutabréfum. Þá kom upp sá möguleiki að stofna lítið hlutafélag sem keypti hlutinn og þar með var starfsmaðurinn nánast laus við áhættu því að það var hlutafélagið sem skuldaði og átti viðkomandi hlutabréf í bankanum. Ef allt fór á versta veg, sem það og gerði, var það hlutabréfið sem tapaðist, þ.e. einhverjar 400 þús. kr. í stofnfé, kannski 600 þús. með kostnaði við að stofna hlutafélagið, en ekkert meira tjón.

Hinir starfsmennirnir sem keyptu beint, jafnvel umtalsverðar upphæðir, eru í mjög slæmum málum í dag. Ég veit ekki hvað gerðist, hvort þeir voru beittir félagslegum þrýstingi og þeir spurðir: Heyrðu, treystirðu ekki hlutafélaginu sem þú vinnur hjá? En það merkilega var að hlutafélagið jók eigið fé með þessum hætti, viðkomandi banki sem lánaði starfsmönnunum jók eigið fé vegna þess að hlutabréfin töldust ekki sem skuld, en lánið sem veitt var taldist sem eign þannig að hlutafélagið jók eigið fé sitt um 100 millj. kr. eða lánaði einhverjum starfsmanni fé til kaupa á 100 millj. kr. af hlutafé. Það hefur lítið verið rætt. Ég mundi segja að þetta félli undir fjármálaráðgjöf og neytendavernd á fjármálamarkaði. Um það eru mörg dæmi. Síðan hefur komið í ljós að menn hafa lánað eða selt fólki kauprétt, sérstaklega eldra fólki, án þess að veita því sæmilegar tryggingar fyrir því að kauprétturinn haldi. Þess vegna eru fjöldamörg dæmi um stórkostlega ágalla á neytendavernd, fullyrði ég. Það er ekkert smámál. Það er ekki eins og þegar menn kaupa peysu og það kemur gat á hana eftir fyrsta þvott. Þá er það kannski spurningin um 10 þúsund kall, eða 20 þúsund kall ef þetta er dýr peysa, en hér er um að ræða fjárhæðir sem rústa fjárhag viðkomandi fjölskyldu og því hefur ekkert verið sinnt.

Ég legg til að tekin verði upp miklu markvissari stefna um neytendavernd á fjármálamarkaði og að hún verði vistuð á einum stað. Ég held að menn þurfi að fara í gegnum þá umræðu hvort hún eigi að vera hjá Neytendastofu eða Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið hefur að sjálfsögðu heimildirnar sem þarf til að rekja svona dæmi. Það er þó ekki víst að það fari saman að hafa eftirlit með fjármálamarkaðnum og sinna jafnframt neytendavernd, en hins vegar gætu þessar stofnanir unnið saman. Það þarf að fara í gegnum þá umræðu og væri ágætt ef hv. nefnd mundi fjalla pínulítið um það efni.

Mikið hefur verið rætt um verðtryggingu og hvort hún falli undir tilskipun Evrópusambandsins. Mér skilst og ég hef lesið um það að í Evrópu sé í gildi tilskipun um neytendavernd sem undanskilur fasteignir. Unnið er að nýrri tilskipun hjá Evrópusambandinu sem fjallar einmitt um fasteignakaup. Það verður áhugavert að sjá hvað gerist þegar við þurfum að löggilda þá tilskipun því að þá verður væntanlega að setja fasteignakaup undir þá tilskipun. Í drögum að þeirri tilskipun sem liggja fyrir, og sem ég hef eitthvað gluggað í, hafa menn áhyggjur af fyrirbærum sem neytendavernd á fasteignamarkaði leiðréttir bara alls ekki. Maður sem keypti íbúð á Írlandi í bólunni þegar verðið var sem hæst, var með 30% eigið fé og fékk 70% lán, gæti selt íbúðina núna á 50% af kaupverðinu. Íbúðaverðfallið á Írlandi er meira en hér á landi og Írar tala meira að segja um að fasteignavandamálið hjá þeim sé meira en fasteigna- og skuldavandamálið á Íslandi. Sá maður hefur tapað, hann skuldar núna 30% meira en hann á eða 70% af upphaflegu verði á móti 50%. Hann er í vonlausri stöðu þrátt fyrir enga verðtryggingu og þrátt fyrir evru. Ekki er sagt í þessari nýju tilskipun hvernig hægt er að milda það. Þetta hefur líka gerst á Spáni. Þar hefur fólk keypt íbúðir á allt of háu verði og losnar ekki við þær.

Fram kom á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem var virkilega góður, að kona nokkur hafi keypt íbúð í Danmörku, í fyrirheitna landinu með lánakerfið sem allir vísa til. Hún getur ekki selt íbúðina fyrir verðmæti lánanna sem hvíla á henni, langt í frá, þannig að hún er komin með neikvæða eiginfjárstöðu í fyrirheitna landinu Danmörku. Hér á landi tala menn jafnan um að taka upp lánakerfi Dana en þetta er vandamál sem við glímum líka við á Íslandi. Hér varð eignabóla. Íbúðaverð hækkaði óskaplega að raungildi, svo féll það, sprakk og 35% lækkun varð á raungildi. Það er vandi þeirra sem glíma við skuldavandamál þar sem skuldirnar hafa hækkað töluvert meira en íbúðirnar. Menn lenda í mínus sem valdið hefur óskaplegum vanda hjá mörgum heimilum, fyrir utan það að tekjurnar hafa minnkað mikið. Það er hinn raunverulegi vandi.

Tilskipun Evrópusambandsins undanskilur íbúðalán en í meðförum Alþingis var Íbúðalánasjóður settur undir neytendalög, af einhverjum ástæðum, með tilvísun til Norðurlandanna og að fengnu áliti Íbúðalánasjóðs sem ekki var mótfallinn því að ákvæði laga um neytendalán tækju einnig til slíkra samninga. Íbúðalánasjóður var því lagður undir lögin. Það var mjög lítil umræða um það á Alþingi. Þetta kom frá Evrópusambandinu og var innleiðing á Evróputilskipun og þá er yfirleitt ekki talað mikið á Alþingi.

Ég legg til að Alþingi sé miklu varkárara og ræði miklu ítarlegar alla samninga sem koma frá Evrópusambandinu. Ég minni á tilskipunina um innlánstryggingar sem lítið var rætt um og þá tilskipun sem hér um ræðir. Nú verður það væntanlega verkefni dómstóla, ég veit ekki hvernig það fer, að velta því fyrir sér hvað gerist þegar tilskipunin undanskilur fasteignakaup en einstök lönd setja svo inn í lög um neytendalán hvort gengur framar. Svo koma náttúrlega inn í þetta fyrningarreglur og annað slíkt, en afleiðingarnar geta verið stórkostlegar fyrir allt efnahagslíf á Íslandi, eiginlega alla borgarana. Þeir sem fara verst út úr því eru leigjendur sem ekki skulda í íbúðunum en þurfa væntanlega að borga ef þetta lendir mikið á skattgreiðendum. En ég vona nú að menn komist að einhverri félagslega sanngjarnri lausn í þessu efni.

Þar sem nefndin mun nú fjalla um þetta mun ég leggja til ásamt hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að einnig verði skoðað að lántakendur verði upplýstir um greiðslubyrði sem nær út fyrir hefðbundna starfsævi. Það hefur eiginlega ekkert verið rætt. Þegar menn lána verðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára og viðkomandi er kominn yfir fimmtugt er í rauninni um mikla greiðslubyrði að ræða þegar maðurinn verður níræður. Ég held að maður þurfi aðeins að vekja athygli á því og segja við fólk: Er það þetta sem þú vilt? Ef svo er er það fínt, en það þarf að upplýsa menn um að þegar þeir taka lán eru þeir alltaf að ráðstafa framtíðartekjum sínum. Það er kannski það sem þyrfti að standa í fyrsta kaflanum í bók um fjármálalæsi: Lántaka er ráðstöfun á framtíðartekjum og menn gera slíkt ekki allt of oft.