141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[18:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að ég hef misskilið hv. þingmann. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ef við lítum til framtíðar, frá og með deginum í dag, þá finnst mér að Alþingi eigi að setja skarpari reglur. Ég hélt að hv. þingmaður væri að tala aftur í tímann sem hefði þá áhrif á dómsmál sem eru í gangi.

Hv. þingmaður gat um það að verðbólgan, hvernig orðaði hún það, skapaði peninga. Hún gerir það ekki. (EyH: Verðtryggingin.) Verðtryggingin, já. Verðtryggingin skapar ekki peninga en hún dreifir greiðslubyrðinni jafnt yfir langan tíma. Hún dreifir greiðslubyrðinni og þá göngum við út frá því að laun og annað verðlag haldist í hendur. Ef það gerist ekki í langan tíma þá erum við að tala um hungursneyð. Það er nefnilega þannig að laun og ráðstöfunartekjur hafa haldist í hendur við verðlag að örfáum árum undanskildum, sem betur fer fyrir þjóðina. Reyndar hafa launin hækkað umtalsvert meira en verðlag alla vega á meðan Sjálfstæðisflokkurinn var við völd, þá hækkuðu þau umtalsvert umfram verðlag. Það var náttúrlega (EyH: Og Framsókn.) — Og Framsókn, já. Það er gott að halda öllu til haga, yfirleitt er talað um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið einn við völd þegar hann á að bera ábyrgð á einhverju.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um getu lágtekjufólks til að kaupa íbúð. Mér sýnist nefnilega reglur Evrópusambandsins um óverðtryggða og breytilega vexti gera að verkum að lágtekjufólk getur ekki keypt íbúð, það leigir. Það er afleiðing af þessum tilskipunum Evrópusambandsins að búa til ákveðnar stéttir þar sem ákveðinn fjöldi fólks er leigjendur, myndar ekki eignir og er ekki fjárhagslega sjálfstæður.