141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þm. Lilja Mósesdóttir séum báðar miklir aðdáendur pistla Ólafs Margeirssonar þar sem hann hefur farið mjög vel í gegnum það hvernig vextir verða til. Hann hefur til dæmis bent á að sá grunnur sem virðist hafa mótandi áhrif á það hvert vaxtastigið í landinu er séu lífeyrissjóðirnir og þær kröfur sem þeir gera um ávöxtun á eignum sínum. Fyrir hrun virtist sú ávöxtunarkrafa vera að mynda ákveðið gólf hvað það varðar hve langt niður þú getur náð vöxtunum. Ég man eftir að hafa séð töflu þar sem vextir hér og vextir í nágrannalöndunum voru bornir saman og þá virtist bilið einmitt nokkurn veginn vera þessi ávöxtunarkrafa.

Hann hefur líka bent á að það sé algerlega óraunhæft að vera með vaxtastig í landinu — sem er verð á peningum, vextir eiga að vera verð á peningum — sem fyrirtækin, verðmætasköpun í samfélaginu, getur ekki staðið undir. Hann tók saman hagnað fyrirtækja og í tvö til þrjú ár á 20–30 ára tímabili skiluðu fyrirtækin nægilega miklum arði til að geta staðið undir þessum kröfum. Við þurfum því að koma okkur niður á jörðina eins og þingmaðurinn ræddi um, við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvað er raunhæft að fara fram á sem verð.

Menn hafa talað um að spyrja lífeyrissjóðina hversu mikið þeir vilji fá borgað. Auðvitað vilja þeir fá sem allra mest. Það er þeirra hlutverk. En það er ekki okkar hlutverk.