141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[18:15]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um neytendalán, afar mikilvægt mál sem tengist grundvallarhagsmunum íslenskra heimila. Mál sem vekur upp hálfgerða sorgartilfinningu þegar maður hugsar um hvernig neytendavernd hefur verið á fjármálamarkaði og á þessum lánamarkaði um áratugaskeið í samfélagi okkar. Það er mikið talað um verðtryggingu um þessar mundir og afnám hennar. Verðtrygginguna sem er sjúkdómseinkenni efnahagslegs óstöðugleika sem hefur verið landlægur á Íslandi, viðvarandi verðbólgu sem hefur hlaupið með himinskautum, fór hér yfir 100% á níunda áratugnum og hefur yfirleitt verið langt umfram það sem þekkist í löndunum í kringum okkur og í þriðja lagi verðtryggingu sem sjúkdómseinkenni þess að við erum hér með gjaldmiðil á Íslandi sem ekki nýtur trausts á alþjóðamörkuðum.

Íslenskur lánamarkaður hefur sömuleiðis verið því marki brenndur að neytendur hafa verið því sem næst valdalausir. Þeir hafa verið þiggjendur þeirra kosta, oft afarkosta, sem fjármálakerfið hefur boðið þeim þegar kemur að fjármögnun fjárfestinga sem við lítum á sem mannréttindamál í samfélaginu, að eiga þak yfir höfuðið.

Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Helgi Hjörvar fór vel yfir það frumvarp sem við erum með fyrir framan okkur í dag og þær breytingartillögur sem efnahags- og viðskiptanefnd gerir. Ég ætla ekki að endurtaka þær en legg áherslu á að í þeim breytingartillögum er meðal annars kveðið á um það — og það er afar veigamikið og sögulegt í rauninni — að fjármálastofnunum verði í framtíðinni skylt að upplýsa lántakendur um þau áhrif sem verðtryggingin hefur á heildarlántökukostnaðinn. Auðvitað hefur það verið hreinn smánarblettur á fjármálamarkaðnum um áratugaskeið að fjármálastofnanir á Íslandi hafi komist upp með það að veita íslenskum fjölskyldum verðtryggð húsnæðislán án þess að þurfa að upplýsa neytendur um raunverulegan lántökukostnað og þá sérstaklega þann kostnað sem rekja mætti til verðtryggingarinnar.

Hvernig má þetta vera? Það má að einhverju leyti rekja til laga um neytendalán frá 1994 og síðan þeirra breytinga sem voru gerðar árið 2000. Í 12. gr. laga um neytendalán frá 1994 er sérstakt ákvæði um verðtrygginguna og þar segir, með leyfi forseta,

„Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.“

Ég tel augljóst að það hafi ekki verið ætlun löggjafans á þessum tíma, á tíunda áratugnum, að þetta yrði túlkað þannig að verðbólga út lánstímann væri engin. Það er augljóslega fráleitt miðað við íslenska hagsögu, en það er í raun og veru samt sá veruleiki sem menn hafa búið við og varð sérstaklega alvarlegur á aldamótaárinu þegar lögum um neytendalán var breytt þannig að fasteignalán voru í kjölfarið felld þar undir. Þar hefði þurft að grípa inn í um leið og breyta lögunum með þeim hætti að herða og hnykkja á því að verðtryggingin skyldi ævinlega talin með þegar veitt væri spá um heildarlántökukostnað.

Í dag er vinsælt á bögglauppboði stjórnmálanna að boða afnám verðtryggingarinnar og það er athyglisvert í ljósi þess að í raun og veru eru íslenskir neytendur að nema hana úr gildi með fótunum í vaxandi mæli. Langflestir sem taka lán á íslenskum lánamarkaði í dag hafna verðtryggðum lánum en velja óverðtryggð lán, væntanlega í þeirri von að það sé þeim til hagsbóta, að það þýði lægri lántökukostnað í framtíðinni. Því miður er sú mynd mun flóknari. Að sjálfsögðu eru óverðtryggð lán ekki ónæm fyrir verðbólgunni, því fer víðs fjarri. Vaxtastig óverðtryggðra lána tekur einmitt heilmikið mið af verðþróun í landinu á hverjum tíma og við sjáum það gerast í þeim kjörum sem íslenskir neytendur hafa úr að velja á íslenskum fjármálamarkaði um þessar mundir að þar er verið að bjóða 7,5–7,7% óverðtryggða vexti, ef skoðuð eru þau kjör sem þrír stærstu bankarnir bjóða um þessar mundir. Þetta eru auðvitað kjör sem eru langt umfram það sem þekkjast í löndunum í kringum okkur.

Það er líka áhyggjuefni að það er ekki sama Jón eða séra Jón. Mun betri kjör bjóðast þeim sem hafa meiri efni, þeim sem hafa efni á að leggja eigið fé í fasteignir heldur en hinum sem ekki eiga í önnur hús að venda og þurfa að treysta á há veðhlutföll.

Ég tel að stóra málið í þessu sé að við þurfum með einum eða öðrum hætti að komast inn í það umhverfi að íslenskir neytendur geti tekið hér húsnæðislán á kjörum sem eru þekkt þegar lánasamningur er undirritaður og að íslenskir neytendur geti treyst því að þær forsendur sem eru fyrir hendi þegar þeir taka lán standist í öllum meginatriðum.

Það er athyglisvert að þetta eru að mörgu leyti þau skilaboð sem mæta okkur ef við horfum á evrópska neytendalöggjöf og hefur komið skýrt fram í máli dr. Elviru Mendez Pinedo sem sendi fyrirspurn til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á dögunum og óskaði eftir svörum um stöðu verðtryggingarinnar og sérstaklega hvernig hún hafi verið framkvæmd á Íslandi. Eitt meginatriðið í þeim svörum sem bárust í áliti sérfræðings framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við spurningum dr. Elviru var einmitt það að afar mikilvægt væri að þegar lántakendur tækju lán væri samningsforsendum ekki kollvarpað einhliða af hálfu fjármálastofnana eftir á, til dæmis vegna þess að verðtrygging hefði keyrt heildarlántökukostnaðinn upp úr öllu valdi.

Ég hef óskað eftir því að í efnahags- og viðskiptanefnd verði milli 2. og 3. umr. farið í gegnum þá fyrirmynd sem er í evrópskri neytendalöggjöf um þetta samningssamband á milli neytenda og lánveitenda, þar sem báðir aðilar hafa sinn rétt og neytendur hafa möguleika á því að taka sjálfstæða ákvörðun um það, ef forsendur breytast, hvort þeir eru tilbúnir að gangast undir þá skilmála eða ekki. Það sé ekki svo, eins og verið hefur í veruleika okkar á Íslandi, að lánveitendur, fjármálastofnanirnar geti einhliða velt öllum viðbótarkostnaði yfir á neytendur þegar verðbólguþróun er óhagstæð.

Ég tel sumsé að í þessu frumvarpi séu stigin mikilvæg skref. Það er verið að treysta verulega upplýsingagjöf til neytenda með breytingartillögum meiri hlutans, það er afar mikilvægt skref. Ég tel að við eigum að nota tækifærið á þeim stutta tíma sem eftir er af þessu þingi og skoða hvort við getum stigið enn frekari skref til að treysta ekki síst samningsstöðu neytenda í þessu mikilvæga hagsmunamáli.