141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

menningarstefna.

196. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um tillögu til þingsályktunar um menningarstefnu.

Í tillögunni er lögð fram sérstök stefna íslenska ríkisins á sviði lista- og menningarmála en hún er sett fram í samhengi við almenna markmiðasetningu stjórnvalda sem birtist í sóknaráætluninni Ísland 2020. Stefnunni er ætlað að lýsa á breiðum grunni aðkomu ríkisins að málefnum lista og menningararfs og nýtast stjórnvöldum og Alþingi við frekari umræðu, stefnumótun á afmörkuðum sviðum og ákvarðanatöku. Í tillögunni eru fjórir meginþættir lagðir til grundvallar: sköpun og þátttaka í menningarlífinu, gott aðgengi að listum og menningararfi, samvinna stjórnvalda við þá fjölmörgu aðila sem starfa á sviði menningar og í fjórða og síðasta lagi en sannarlega ekki síst þátttaka barna og ungmenna í menningarlífinu.

Í kaflanum um menningarþátttöku kemur fram að eitt af markmiðum tillögunnar er að aðgengi að menningu verði sem best tryggt fyrir alla þjóðfélagshópa, óháð búsetu og efnahag. Nefndin áréttar þann skilning sinn að hér sé einnig átt við fatlaða og aðra þá sem þurfi sérstaklega að koma til móts við til að aðgengi þeirra sé tryggt til jafns við aðra.

Í leiðarljósum stjórnvalda í málefnum lista og menningararfs kemur fram að stjórnvöld skuli leggja sérstaka áherslu á að efla menningu barna og ungmenna og stuðla að því að þau séu virkir þátttakendur í menningarlífinu. Fram kom í máli nokkurra umsagnaraðila og við ræddum það talsvert í nefndinni að mjög kostnaðarsamt og erfitt væri að fá sýningar og viðburði frá menningarstofnunum á höfuðborgarsvæðinu sem eiga að þjóna landinu öllu út á land. Nefndin tekur undir áhyggjur umsagnaraðila hvað þetta varðar og bendir á að í leiklistarlögum, nr. 138/1998, kemur fram í 3. mgr. 5. gr. að á vegum Þjóðleikhússins skuli árlega farnar leikferðir sem víðast um landið. Þessu til áréttingar leggur nefndin til þá breytingartillögu að stjórnvöld hlúi sérstaklega að þeim svæðum sem síst geta notið þjónustu frá helstu menningarstofnunum, með gerð menningarsamninga, fjárfestingaráætlana og þróunarverkefna. Nefndin áréttar mikilvægi góðs aðgengis að listum og menningu óháð búsetu og efnahag fólks. Leggur nefndin því til breytingartillögu þess efnis að menning barna og ungmenna verði efld á landinu öllu.

Nefndin tekur undir mikilvægi menningarstofnana í samfélaginu og að tryggja verði aðgengi almennings að menningararfi þjóðarinnar. Í þessu sambandi leggur nefndin til að við markmið lifandi menningarstofnana bætist að menningarstofnanir á landsvísu þjónusti íbúa landsbyggðarinnar eins og kostur er.

Ég vil nefna að nefndinni bárust tillögur frá Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa þar sem komu fram ýmsar ábendingar varðandi þessa þingsályktunartillögu, m.a. um mikilvægi þess að tryggja réttlátt starfsumhverfi fyrir sjálfstætt starfandi listamenn. Það er mikilvægt að taka undir þau sjónarmið. Við bendum á það í nefndarálitinu að réttlátt starfsumhverfi fyrir sjálfstætt starfandi listamenn verður einmitt ekki síst tryggt með sjóðum sem reknir eru á faglegum forsendum, en það er sérstaklega áréttað í 1. og 2. tölulið. V. kafla tillögunnar sem fjallar um starfsumhverfi í menningarmálum.

Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í tillögunni að stjórnvöld vandi aðkomu sína að málaflokknum og hafi virkt samráð við sem flesta aðila á menningarsviðinu en hlutverk ríkisins í menningarmálum snýr einkum að því að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningar. Nefndin vill einnig árétta mikilvægi þess að hugað verði að grunnmenntun á sviði menningar, sér í lagi á landsbyggðinni, sem og starfsemi áhugafólks á sviði menningar og lista.

Það er mikilvægt að árétta að hér er ekki um aðgerðaáætlun að ræða heldur almenn leiðarljós til að fylgja í menningarmálum. Það er skoðun mín að það sé afar mikilvægt að þessari menningarstefnu, verði hún samþykkt, verði síðan fylgt eftir með markvissri aðgerðaáætlun sem lýsi forgangsröðun stjórnvalda í þeim efnum. Þessi málaflokkur hefur góðu heilli notið vaxandi athygli á liðnum árum og það eru augljós samlegðaráhrif á milli menningarmálanna og okkar atvinnulífs. Það hefur verið bent á hlut skapandi greina í þjóðarbúinu sem er afar mikilvæg og burðug stoð í okkar atvinnulífi sem skapar í kringum 10 þús. manns atvinnu og veltir tekjum sem hlaupa á 200–300 milljörðum króna á hverju ári.

Ég vil vekja athygli á því að það er mikil og góð samstaða í allsherjar- og menntamálanefnd um þetta mál. Undir þetta álit skrifa Björgvin G. Sigurðsson, formaður nefndarinnar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, framsögumaður, Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, með fyrirvara, Siv Friðleifsdóttir og Birgitta Jónsdóttir.