141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[18:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu fylgir umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem fjallar einmitt um þessa hlið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, vegna breytinga sem gerðar voru á þeim með lögum nr. 156/2012. Í þessu frumvarpi er um að ræða breytingar á lista yfir vörur sem innihalda sykur og sætuefni og breytingar á tollskrá. Meginmarkmið þess frumvarps sem varð að lögum nr. 156/2012, samkvæmt athugasemdum við það, var að dreifa gjöldum í auknum mæli í samræmi við manneldissjónarmið, samræma betur álagningu gjaldsins og að mæta tekjumarkmiðum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013. Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að lagt sé upp með að vörugjald verði greitt af raunverulegu sykurinnihaldi gjaldskyldrar vöru. Þessu frumvarpi er ætlað að styðja við að það markmið náist.“

Síðan er haldið áfram og fjallað um málið. Ég hvet hv. þingmenn til að lesa umsögnina. Þar segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Þar sem þær breytingar sem hér eru lagðar til ættu ekki að leiða til breytinga á neyslumynstri almennings á sykurvörum er talið að þær tekjuáætlanir sem gerðar voru vegna frumvarps sem varð að lögum nr. 156/2012 haldi gildi sínu. Verði frumvarpið að lögum er því gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði óbreyttar frá áætlun fjárlaga fyrir árið 2013.“

Svo mörg voru þau orð og þetta er fylgiskjal með frumvarpinu sjálfu.