141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[19:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum mál sem við þekkjum frá því á síðustu dögum þingsins fyrir áramót. Þá fór hæstv. ríkisstjórn af stað með mál sem átti að einfalda utanumhald um tollinn og síðan átti að setja á sykurskatt sem átti að gera það að verkum að landsmenn borðuðu hollari mat eða minni sykur en áður. Niðurstaðan eftir umfjöllun nefndarinnar var sú, þegar menn höfðu fengið umsagnir inn á borð til sín og fengið betri mynd af málinu, að frumvarpið og seinna lögin flæktu tollskrármálin verulega og ýttu undir neyslu sykurs, í það minnsta undir neyslu á ákveðnum vörum.

Virðulegi forseti. Nokkrum dögum eftir að frumvarpið varð að lögum kemur í ljós að það var gallað og þess vegna þurfum við að taka málið upp aftur. Ég verð að viðurkenna að ég á svolítið erfitt með að átta mig á því hvað er nákvæmlega á ferðinni. Það er hins vegar algjörlega ljóst, ef skoðaðar eru þær fáu blaðsíður sem hér eru, að verið er lagfæra eitthvert klúður sem hefur orðið vegna þess að málið er svo flókið. Ég ætla aðeins að lesa upp úr frumvarpinu. Í 5. gr segir, með leyfi forseta:

„Í greininni er lagt til að fjárhæð vörugjalds á síróp í tollskrárnúmerunum 2106.9022 og 2106.9063 verði lækkað úr 210 kr./kg í 168 kr./kg þar sem sykurinnihald síróps í þessum tollskrárnúmerum er lægra en sagt er til um í núverandi útgáfu viðaukans.

Í öðru lagi er lagt til að tilteknum tollskrárnúmerum verði bætt við viðaukann. Um er að ræða tollskrárnúmer sem innihalda sykruð þykkni og nokkrar tegundir sætuefna. Jafnframt er lagt til að tollskrárnúmerið 2934.9910, sem inniheldur sætuefnið aspartam, komi í stað tollskrárnúmersins 2934.9200 en það númer er misritað í núgildandi útgáfu viðaukans. Gjald á númerið 2934.9910 kemur þó til með að vera það sama og lagt er á númerið 2934.9200.

Í þriðja lagi er lagt til að tollskrárnúmer sem innihalda bjór verði fjarlægð úr viðaukanum þar sem fullgerður bjór inniheldur ekki viðbættan sykur.“

Síðan er lagt til í 6. gr. að gosdrykkir sem eingöngu innihalda bragðefni en hvorki sykur eða sætuefni verði tollflokkaðir sérstaklega svo þeir lendi ekki í álagningu vörugjalds með sykruðum gosdrykkjum. Með greininni er því lagt til að sérstök tollskrárnúmer verði tekin upp fyrir þessa tegund gosdrykkja.

Það er væntanlega til komið vegna þess að það eru svo fá tollskrárnúmer í tollskránni.

Einnig er lagt til að nokkrum tollflokkum sem innihalda tiltekin hrein sætuefni verði skipt upp til þess að mögulegt verði að leggja vörugjald á viðkomandi efni.

Virðulegi forseti. Ef einhver hélt að sú lagasetning sem var farið fram með fyrir áramót mundi einfalda eitthvað hvet ég viðkomandi til að lesa þennan stutta texta, fara aðeins yfir hann og meta síðan sjálfur hvort um einhverja einföldun sé að ræða. Í hvert skipti sem við fáum svona klúður eins og um ræðir — þetta er einhver brotalöm og fullkomlega útilokað að menn hafi ætlast til þess að við tækjum málið upp nokkrum dögum eftir að lögin tóku gildi, það er verið að reyna að bjarga einhverju fyrir horn. Þegar málið var lagt fram ræddum við aðeins neyslustýringu og við sjáum náttúrlega með því að lesa textann hversu gríðarlega flókið það er. Menn eru að meta sykur og sætuefni og samband þess við ýmsa aðra þætti og það kallar á ómælda vinnu, kostnað og flækjustig.

Gefum okkur, sem er ekki sjálfgefið, að neyslustýringin takist. Fólk hætti að borða venjulegan hvítan sykur eða sykur og sætuefni og fari frekar yfir í ávaxtasykurinn en frumvarpið gengur út á að lækka verð á ávaxtasykri og fá fólk til að hætta að borða sykur. Ég vona að það sé þá ekki rétt sem vísindamenn velta upp núna og langar, lærðar greinar eru skrifaðar um, að ávaxtasykurinn sé mjög hættulegur og í rauninni hættulegri en hvíti sykurinn. Hann geti valdið einkennum fíknar og ein ástæðan fyrir því að ýmislegt er verra á Vesturlöndum, eins t.d. sykursýki, offita og annað slíkt, sé vegna þess að við neytum í óhófi ávaxtasykurs sem er ekki eins náttúran lagði upp með. Ávaxtasykurinn er alla jafna settur í trefjabúning og þegar við fáum okkur appelsínu sem inniheldur ávaxtasykur þurfum við að fá mikið af trefjum með honum. Þeir sem stúdera það telja að til þess að fá okkur, eða þá sem hafa aðgang að þeim matvælum, til að borða trefjarnar þurfum við góðu sætuefnin, ávaxtasykurinn, sem er þarna inni, hann er hvatinn.

Við erum hins vegar með allrahanda ávaxtasafa, og aðrar slíkar vörur, í óhóflegum mæli sem í er mikill ávaxtasykur og eru áhöld um hvort ávaxtasykur sé góður fyrir okkur í þeim mæli sem við neytum hans. Lagasetningin fyrir áramót hafði það skilgreinda markmið að auka neyslu ávaxtasykurs. Við skulum vona að við höfum ekki gert enn meiri lýðheilsumistök en talið var í umsögn Lýðheilsustofnunar. Ég held að við ættum að fara í það verkefni sem allra fyrst, allra hluta vegna, að einfalda hluti og kannski ætla okkur ekki það flókna og erfiða hlutverk að stýra því hvað fólk borðar, með tollum, gjöldum og sköttum. Ég held að frumvarpið sem er lagt fram núna sé gott dæmi um hvað slíkt getur haft í för með sér, bæði kostnað og mikla vinnu og vinnan í málinu tekur tíma frá mjög mikilvægum málum.