141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi þá eru núna heimildir til að fara í þessa langtímaleigu þannig að í raun og veru erum við að þrengja leiguleiðina hér. Við erum að fara að setja stóru byggingarnar í opinbera framkvæmd en halda því opnu að minni byggingar, eins og sjúkrahótelin og bílastæðahús og annað slíkt, fari leiguleiðina því að ég tel að það gæti verið góður kostur án þess þó að ég ætli að skera úr um það á þessari stundu.

Hvort afgreiða eigi þetta mál á þessu þingi og af hverju — ég teldi það afar æskilegt en ég er auðvitað bara að leggja þetta mál fram á þinginu og nú er það þingnefndar að fjalla um það. Ég vona að þingnefndin sjái sér fært að afgreiða þetta fyrir þinglok. Ég tel æskilegt að við byrjum strax að fara vandlega yfir það hvort þessi bygging rúmist ekki í fjárlögum á næsta ári þannig að menn geti farið að undirbúa það að koma henni fyrir í ríkisfjármálaáætlun. Þess vegna er mikilvægt að vita hvar við stöndum þannig að þetta mál standi ekki óafgreitt þegar menn fara að vinna í fjárlögum fyrir næsta ár.