141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins til að fylgja málum eftir í framhaldi af spurningu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar: Ef ætlunin er að klára þetta fyrir þinglok, af hverju kom þetta frumvarp ekki fyrr?

Í öðru lagi vil ég spyrja um tímapunkt. Á hvaða tímapunkti erum við núna? Eins og margir aðrir var ég hlynnt því að byggður yrði nýr spítali á meðan ég hélt að við hefðum efni á því, að við ættum peninga í sjóði. Nú er verið að tala um að hefjast handa við 80 milljarða kr. framkvæmd — sú er áætlunin, en við getum alveg verið viss um það að hún á ekki eftir að standast — þegar við eigum ekki fyrir því og við höfum ekki efni á að reka þá heilbrigðisþjónustu sem við vildum gjarnan vera að reka núna. Húsakostur Landspítalans er ekki upp á marga fiska, eins og allir vita, en hér erum við með ónýttar skurðstofur út um allt. Hvernig getum við í alvörunni verið að tala um að leggja 80 milljarða í þetta þegar við höfum ekki efni á því að reka heilbrigðisþjónustuna í dag eins og við vildum gjarnan gera það?