141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ekki taka þá ákvörðun á sjö þingdögum mánuði fyrir kosningar, ég segi það bara alveg hreint út. Mér finnst mjög óábyrgt að ætlast til þess að við tökum þessa ákvörðun á þessum tíma. Af því að vísað var í umsögn fjárlagaskrifstofunnar þá segir þar skýrt að þegar um svo stóra fjárfestingu á vegum hins opinbera sé að ræða þurfi að huga að forgangsröðun, draga þá úr í samgöngumálum eða í öðrum útgjöldum. Það liggur í augum uppi.

Mér finnst þetta ekki rétti tímapunkturinn til að fara í þetta þó að ég geri mér grein fyrir því að bæta þurfi tækjakost. Ef við heimfærum þetta yfir á heimilið þá líður mér eins og ég sé að taka ákvörðun um að kaupa mér sumarbústað þegar ég hef ekki efni á að borga af íbúðarláninu. Ég vil miklu frekar borga af íbúðarláninu fyrst og kaupa mér svo sumarbústaðinn. Ég sé að menn eru að fussa hér, ég er ekki að gera lítið úr vanda Landspítalans (Gripið fram í.) — nei, ég er að tala um forgangsröðun verkefna og ég er að tala um forgangsröðun, það þarf að (Forseti hringir.) forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar en ekki í þágu bygginga í Reykjavík.