141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er algjörlega augljóst að pólitíska forustu hefur fullkomlega vantað í þetta mál á þessu kjörtímabili. Ég fer betur yfir það í ræðu minni, og það er alveg óþolandi. Ástæðan fyrir því að ýmsar ranghugmyndir eru uppi um þetta verkefni er getuleysi hæstv. ríkisstjórnar sem hefur ekki þorað að standa á bak við verkefnið og útskýra fyrir landsmönnum hvers vegna verið er að fara út í þetta. Það er þess vegna sem við erum sí og æ að leiðrétta tóma þvælu.

Hins vegar er eitt grundvallaratriði í þessu og það kemur fram í fylgiskjalinu frá fjárlagaskrifstofunni: Gert var ráð fyrir því á sínum tíma að nást mundi rekstrarhagræðing sem mundi borga fyrir leiguleiðina. Nú er búið að vera að þvælast með þetta mál, lítið af því frést, ýmislegt gerst í skipulagsmálum og öðru slíku — eru þessar forsendur enn til staðar? Er með einhverjum hætti búið að breyta spítalanum þannig að ekki sé sama hagræðing af þessu eins og lagt var upp með?