141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:34]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna því að þetta mikilvæga mál skuli vera komið fram því það gefur þingmönnum tækifæri til að ræða það. Ekki svo að skilja að ég telji að við séum að taka ákvarðanir í sjálfu sér um fjárveitingar eða byggingu spítalans sem slíks því hér er fyrst og fremst um að ræða formbreytingu á ákvörðun sem þegar hefur verið tekin varðandi það að við ætlum að byggja nýjan spítala. Hins vegar liggur náttúrlega fyrir að við gerum það ekki öðruvísi en að til þess séu heimildir í fjárlögum.

Málið er gríðarlega mikilvægt. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að heildarkostnaður á 10 árum sé um 85 milljarðar. Við skulum samt ekki gleyma því að inni í þeirri tölu eru upphæðir sem óhjákvæmilega þyrfti að nota meðal annars í tækjakaup og viðhald sem að sjálfsögðu væri ekki hægt að víkja sér undan þó að við gerðum ekkert annað. Það er býsna mikilvægt að hafa í huga.

Við skulum heldur ekki gleyma því, og ég ætla ekki að falla í þá gryfju að rugla hérna saman stofnfjárfestingum og rekstri, að það hefur margverið reiknað og margverið metið, nú síðast í síðasta mánuði ef ég man rétt, hversu miklir fjármunir mundu sparast við að hafa spítalann í rekstri á einum stað á ársgrundvelli. Það eru umtalsverðir fjármunir, frú forseti. Seinustu útreikningarnir voru eitthvað rétt ríflega 3 milljarðar og það eru mjög margir peningar eins og einhverjir mundu segja. [Hlátur í þingsal.]

Ef við horfum til þess hvað beina stofnframlagið til nýs spítala og nýbygginga er, þ.e. þessir 44,3 milljarðar eða þar um bil eins og getið er um í frumvarpinu, og horfum síðan á 3 milljarðana sem munu sparast í rekstri þá er í sjálfu sér hægt að halda því fram að stofnkostnaðurinn sparist á 15 árum. Ég viðurkenni alveg að þá er ég ekki reikna með vaxtakostnaði, en jafnvel þó við mundum reikna með honum þá yrðu þetta samt innan við 20 ár. Þegar við erum að tala um móðurskipið í íslenska heilbrigðiskerfinu, sjálfan Landspítala – háskólasjúkrahús þá er það býsna vel sloppið. Ég vil halda því fram.

Við verðum nefnilega að átta okkur á því að sparnaðurinn er heldur ekki bara í peningum. Hann liggur líka að stórum hluta til í þjáningum og veikindum þeirra sjúklinga sem þarna þurfa að sækja þjónustu. Hv. þingmenn eru vafalítið ekki búnir að gleyma því hvernig ástandið var á Landspítalanum í janúar á þessu ári og desember á síðasta ári þegar yfirfullur spítalinn með allt upp í 40 sjúklinga í einangrun var viku eftir viku að berjast við sýkingar sem breiddust út um spítalann. Af hverju halda menn að það hafi verið? Af tilviljun? Nei, aldeilis ekki. Það er meðal annars vegna þess að við búum við það á mörgum deildum sjúkrahússins í dag að allt upp í 10 sjúklingar deila einu salerni, og við erum að tala um 21. öldina. Við erum ekki að tala um 1930 þegar við byggðum Landspítalann í miðri kreppunni. Þá byggðu Íslendingar af myndugleik þann landspítala sem stendur í dag, að vísu ekki allar þær byggingar sem eru á lóðinni núna en engu að síður. Þá heyrðust hér í þingsal úrtölur um að við skyldum ekki byggja spítala vegna þess að á spítala færu menn til að deyja. Sem betur fer er það ekki þannig í grundvallaratriðum í dag, hafi einhver trúað því í raun og veru á þeim tíma.

Það er mjög mikilvægt að við heykjumst ekki á því að veita þessu máli brautargengi. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að við erum að tala um formbreytingu. Við erum ekki að tala um það að hleypa af stað einhverjum tuga eða margra tuga milljarða framkvæmdum án samþykktar Alþingis. Samþykktin verður gerð í fjárlögum. Það er mikilvægt að hv. þingmenn átti sig á því.

Við skulum líka hugsa um mannauðinn á spítalanum. Ég veit að nú þegar eru heilbrigðisstarfsmenn sem hafa haldið utan til náms farnir að draga það við sig að koma aftur heim til að vinna á Landspítalanum. Það er þegar farið að gerast, frú forseti. Menn draga það við sig vegna þess að sú aðstaða sem er í boði er svo léleg miðað við það sem gerist annars staðar að menn koma ekki heim. Meira að segja er farið að gerast að heilbrigðisstarfsmenn eru farnir að fara út, ekki eingöngu vegna launakjara heldur vegna aðstöðuleysis sem er á þessu móðurskipi íslensks heilbrigðiskerfis. Þetta er stóralvarlegt mál og við verðum að taka á þessu.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson flutti ágæta ræðu áðan og ég er sammála honum um mjög margt af því sem hann sagði. Hann nefndi meðal annars hluti eins og lyfjakostnað sem væri vissulega umtalsverður, en hann efaðist um að þar mundi sparast. En horfum til dæmis á sýkingarfaraldurinn sem var síðustu mánuði. Meðal annars í því ljósi vil ég leyfa mér að efast um að 3 milljarða sparnaðurinn á ári sé rétt reiknaður. Ef við lendum ítrekað í svona sýkingarfaröldrum eins og við gerðum núna í vetur þá erum við að tala um miklu meiri peninga, því miður. Við megum ekki gleyma því, hv. þingmenn, við erum líka að tala um hörmungar sem einstaklingar og fólk úti í samfélaginu er að lenda í að nauðsynjalausu. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að við eigum ekki pening, eins og einhverjir mundu segja. Við þurfum að gæta ráðdeildar, það er alveg rétt. En við getum ekki lengur látið þetta móðurskip reka á reiðanum. Við verðum að grípa inn í.

Í máli hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur hérna áðan kom fram að hún óttaðist að áætlanir væru ekki fullnægjandi og væru að einhverju leyti bjartsýnar. Það kann vel að vera og hv. þingmaður hélt því fram að það væri eitthvað sem væri viðbúið við opinberar framkvæmdir. Það kann vel að vera. En ætlum við að láta það ráða ákvörðunum? Ætlum við að láta framtíð íslensks heilbrigðiskerfis ráðast af einhverri hræðslu við að áætlanir séu ekki nægilega góðar? Ég er ekki til í það. Málið er miklu mikilvægara en svo að við getum sett einhverja hræðslu í áætlanagerð fyrir okkur. Ef menn eru hræddir við að áætlanir séu ekki nægilega góðar þá beita menn sér væntanlega fyrir því að bæta þær. Þá leggja menn til við fjárlagagerð að meiru sé kostað til eða að svigrúmið sé aukið. En við förum ekki að stoppa þetta mál á þeim forsendum, formbreytingu. Það væri mjög mikið glapræði að mínu viti.

Eins og ég hef rakið í máli mínu þá hníga öll rök til þess að við tökum þessa ákvörðun núna, sem fyrst, en hleypum ekki málinu í að tefjast um einhver missiri eða ár í viðbót vegna þess að við þorum ekki að taka ákvörðun um þetta núna. Sjúklingar og notendur þessarar þjónustu bíða eftir því að við tökum þessa ákvörðun. Starfsfólkið á stærstu heilbrigðisstofnun landsins bíður í þúsundatali eftir því að við höfum kjark til að taka þessa ákvörðun og við eigum ekki að heykjast á því. Afar mikilvægt er að þingið láti ekki pólitíska flokkadrætti stjórna því að þetta risastóra mál fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi verði látið dankast hérna í þinginu á síðustu dögum þingsins. Það megum við ekki gera. Við verðum að hafa kjark til að taka þessa ákvörðun fyrir heilbrigðiskerfið, fyrir sjúklingana, fyrir starfsfólkið og fyrir þjóðina alla.