141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ríkisstjórn sú sem hv. þingmaður styður búin að vera við völd í rúmlega fjögur ár, þ.e. flokkur þingmannsins, og þegar sjö dagar eru eftir af starfi þingsins koma menn með svona frumvarp. Það er búið að samþykkja fjárlög, það er búið að ganga frá árinu og þarna kemur fram að árið 2013 eigi að setja 534 milljónir í þetta verkefni. Það er búið að setja heilmikið í hönnun og skipulagningu sem hefur verið gert vegna 6. gr. heimildar. Það er hins vegar engin tala þannig að við erum væntanlega að setja það líka inn í fjárlög, eitthvað um 1.200–2.000 milljónir.

Finnst hv. þingmanni stórmannlegt hjá hæstv. ríkisstjórn að koma með þetta rétt fyrir lok kjörtímabilsins til þess að velta því yfir á næsta fjármálaráðherra að greiða úr flækjunni, að setja inn í fjárlög 44 milljarða að lágmarki? Um leið og búið er að taka ákvörðun um þetta verður að setja það inn í fjárlög því að þetta er skuldbinding fyrir ríkissjóð nema menn ætli að hætta við. Annaðhvort eru menn að byggja sjúkrahús eða ekki. Telur hv. þingmaður skynsamlegt að koma korteri fyrir lok kjörtímabilsins, samþykkja eitthvað, byggja nýjan spítala og næsti fjármálaráðherra á að sjá um það? Ég er ekki endilega viss um að hann komi úr flokki hv. þingmanns þannig að þessu er bara velt yfir á framtíðina og yfir á börnin eins og mjög mörgu í fjárlögum og fjárreiðum þessarar ríkisstjórnar. Ekkert er tekið á heilmörgum vandamálum, stórum tölum, Íbúðalánasjóði o.s.frv. Hér er enn eitt dæmið þar sem menn fara í gang með eitthvað en klára það ekki.