141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:47]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið. Hann spyr hvort mér finnist stórmannlegt að koma með þetta mál inn í þingið núna. Ef það er þörf á að taka þessa ákvörðun núna, já, þá er það stórmannlegt, ég er á þeirri skoðun.

Hv. þingmaður má ekki láta eins og við séum núna að taka ákvörðun um að byggja nýjan spítala. Það er ekki svo, við erum að breyta lögum nr. 64/2010 sem voru sett í upphafi þessa kjörtímabils, ekki í dag eða á síðasta ári, þvert á móti.

Hv. þingmaður talar um að við séum að taka ákvörðun um 44 milljarða útgjöld. Já, það kann að vera, hv. þingmaður, að við séum að gera það óbeint, en í fjárlögum fyrir hvert ár er ákveðið hvaða fjárhæðir fara til verkefnisins. Ef hv. þingmaður telur að tafla á bls. 14 í greinargerð frumvarpsins sé bindandi með tilliti til fjárlaga kemur það mér á óvart því að svo er náttúrlega ekki. Það eru væntanlega fjárlög sem gilda, hv. þingmaður hlýtur að vera mér sammála um það.