141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:50]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að við tökum ákvörðun á sjö dögum um að byggja nýjan spítala. Ég furða mig á því ef hv. þingmaður hefur ekki tekið eftir þeirri umræðu sem hefur verið í samfélaginu síðustu 15 árin. (Gripið fram í: … fjárlögum.) Hv. þingmaður ber það á borð fyrir þingheim að við séum að taka ákvörðun á sjö dögum.

Ég fór yfir það í fyrra andsvari mínu að lögin um það að byggja Landspítalann voru sett 2010, lögin sem við erum að breyta, og við erum að gera formbreytingu. Hv. þingmaður talar um að við séum hér að taka ákvörðun um öll þessi fjárútlát. Það er ekki svo. Hv. þingmaður talar um hver verði næsti fjármálaráðherra, ég hef ekki hugmynd um það frekar en hv. þingmaður, (PHB: Hann þarf að leysa vandann.) ég hef ekki hugmynd um það. Ég geri líka ráð fyrir að það verði ekki fjármálaráðherra sem taki ákvörðun um fjárveitingarnar heldur verði það löggjafarvaldið.