141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get verið sammála ýmsu sem kom fram hjá hv. þingmanni og verð að segja eins og er að ég tel skynsamlegt að fara þá leið að byggja nýjan spítala og sameina starfsemina á einn stað. Ég hef ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að ekki sé önnur leið fær og það sé besta leiðin til að mæta þörfunum í heilbrigðisþjónustu og hef ég nú skoðað þetta nokkuð vel. Það þýðir ekki að það eigi að bæta við það sem er gert á Landspítalanum, alls ekki, í rauninni á að gera eins lítið á Landspítalanum og mögulegt er. Við getum rætt það seinna. Við höfum að vísu rætt það aðeins áður, en þessi ríkisstjórn hefur ekki sinnt því.

Ég ætla ekki að hafa stór orð um það en við skulum segja að ég held að það sé rangt mat hjá hv. þingmanni að hafa ekki áhyggjur af því hversu seint þetta mál kemur fram. Ég held að ekkert verra sé hægt að gera málinu, ég held að það sé ekki hægt að búa til meiri tortryggni í kringum það, ýta undir frekari ranghugmyndir og annað slíkt, en að vinna það með þessum hætti. Mér finnst ekki rétt hvernig hv. þingmaður svaraði hv. þm. Pétri Blöndal sem spyr, eins og ég held flestir sem að þessu máli koma: Af hverju í ósköpunum er frumvarpið að koma fram núna? En sú er staðan.

Þá er næsta spurning: Er hv. þingmaður tilbúinn að beita sér fyrir því að þetta mál verði í forgangi, að við forgangsröðum núna loksins í störfum okkar í þágu heilbrigðisþjónustunnar? Þá er ég að vísa til þess að á síðustu dögum þingsins verði önnur mál sem skipta minna máli látin víkja og í staðinn geti hv. þingmenn og aðrir fengið bestu upplýsingar og við unnið þetta mál (Forseti hringir.) eins mikið og mögulegt er.