141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:56]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú spyr hv. þingmaður eins og það sé í rauninni bara hægt að vera með eitt mál undir í einu í þinginu. Auðvitað er það ekki svo, það eru mörg þingmál í gangi á hverjum tíma. Hv. þingmaður hefur miklu meiri þingreynslu en ég og þekkir það vafalítið miklu betur en ég (Gripið fram í: Já.) að á síðustu dögum þings eru oft keyrð í gegn og kláruð mál sem hafa verið í vinnslu í langan tíma. Stundum hafa þau verið í vinnslu í langan tíma í ráðuneytum, stundum úti í samfélaginu og stundum í þinginu, og stundum er það blanda af þessu öllu.

Hv. þingmanni er kunnugt um það, eins og mér, að þetta mál hefur verið í undirbúningi og umræðu mörg undanfarin ár. Hér erum við að tala um formbreytingu á þessu máli og eins og ég sagði í mínu fyrra svari mun ég beita mér fyrir því innan míns þingflokks að fá þær upplýsingar sem þurfa að liggja til grundvallar því að við getum tekið um þetta skynsamlega ákvörðun. Ég mun vissulega beita mér fyrir því.