141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þann áhuga sem hann sýnir málinu og andsvarið. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns að þjóðin er að eldast. Ég fór yfir það hér í dag að áætlað er að á næstu 20 árum muni tvöfaldast fjöldi þeirra landsmanna sem eru 75 ára og eldri. Ég hef hins vegar áður, bæði í þingsal og í ræðu og riti annars staðar, komið inn á að það að þjóðin eldist er ekki í línulegu samhengi við að kostnaður aukist í heilbrigðiskerfinu, sem betur fer, vegna þess að ástæða þess að þjóðin nær að eldast jafnt og þétt er að hún er við betri heilsu en hún var fyrir 15, 20, ég tala nú ekki um fyrir 50 árum.

Varðandi það sem þingmaðurinn nefndi í sambandi við launakostnað og kostnað við mannahald og ferðir sparast vissulega nokkuð þegar spítalinn er allur á einum stað og hefur það mikið verið rætt innan spítalans. Ég þekki það af störfum mínum á spítalanum að þegar verst hefur látið hefur farið upp í fjórðungur af vinnudeginum hjá til að mynda sérfræðingum á spítalanum í ferðalög á milli staða á spítalanum til þess að sjá og sinna sjúklingum á mismunandi stöðum. Það er ekki besta nýtingin á heilbrigðisstarfsfólki að láta það sitja í bíl á milli staða allt upp í fjórðunginn af vinnudeginum.