141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því í umræðunni um hvað verið er að ræða; um er að ræða breytingu á þeim lögum sem fyrir eru og felst í því að menn ætla að fara með stærsta hluta framkvæmdarinnar, ef ekki allan, úr svokallaðri leiguliðaeinkaframkvæmd yfir í ríkisframkvæmd.

Mér finnst að við þurfum að skoða mjög vandlega við meðferð þessa máls hvort við þurfum ekki í fyrsta lagi að taka alla framkvæmdina og undanskilja ekki þá þrjá þætti sem þarna eru, að hafa hana alla sem ríkisframkvæmd eða þá ekki. Ég geri mér fulla grein fyrir því að við munum ekki taka ákvörðun hér og nú um að byggja nýjan landspítala. Þess vegna benti ég á það í ræðu minni að það væri svo mikilvægt að gögnin væru rétt þegar menn tækju ákvarðanir, hvort sem það verður í haust eða næsta haust eða hvenær það verður.

Hv. þingmaður sem bendir á þessar staðreyndir má þá ekki gera svona ofboðslega mikið úr þeim kjarki sem þarf til þess að (Forseti hringir.) taka þá ákvörðun sem taka þarf.