141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að tala um aðeins meira en um form í þessari umræðu, líkt og hv. þingmaður sem talaði hér á undan, vegna þess að talað er um að ekki sé verið að taka nýja ákvörðun um að byggja nýjan spítala, þetta sé bara formbreyting, að ákvörðunin hafi verið tekin árið 2010. En síðan er ítrekað að ekki sé verið að skuldbinda ríkissjóð, það verði gert í fjárlögum.

Allar ákvarðanir sem teknar eru má endurskoða á öllum tímum. Á meðan við erum ekki búin að setja skóflu í jörð og byrjuð byggja er bygging þessa spítala ekki hafin í mínum huga. Við getum haft allar skoðanir á því. Það er ekki vegna þess að ég telji húsakost Landspítalans vera það viðunandi að ég leyfi mér að hafa efasemdir um það verkefni, það er fyrst og síðast vegna þess að ég tel að aðrir hlutir séu mikilvægari en að setja takmarkaða fjármuni í verkefnið einmitt á þessum tímapunkti, eins og staða ríkissjóðs er núna.

Hæstv. fjármálaráðherra segir að þetta sé stórt heilbrigðispólitískt mál og ég er sammála því. Það getur vel verið að sumum finnist við hafa tekið þá umræðu áður. Við höfum tekið hana oft áður en mér finnst henni ekki vera lokið. Ég vil t.d. tala um heilbrigðispólitíkina, hagræðinguna og tilflutninginn á heilbrigðisþjónustu af landsbyggðinni til Landspítalans, sem unnið hefur verið markvisst að. Ég vil tala um hann í þessu samhengi vegna þess að hv. þm. Ólafur Gunnarsson spurði hvernig ástandið væri á Landspítalanum, hvort það væri ásættanlegt að vera með tíu manna stofur með sýkingarhættu og hvernig Landspítalinn ætti að geta sinnt öllum þeim verkefnum sem honum væru falin.

Það er einmitt spurningin sem spurt var þegar var tekin ákvörðun um að loka skurðstofum á Suðurnesjum og víðar um landið og færa allar fæðingar meira og minna á kvennadeild Landspítalans. Því var mótmælt af mörgum og sagt: Landspítalinn hefur ekki bolmagn til þess að sinna allri þeirri þjónustu. Hver hefur hagræðingin af því verið, t.d. ef tekið er til hversu miklar endurbætur hefur þurft að gera á húsnæði Landspítalans til sinna aukinni þörf? Hversu miklir fjármunir hafa verið veittir til viðbótar? Hver er hagræðingin á landsvísu?

Ég leyfi mér að spyrja um hagræðinguna fyrir samfélagið í heild. Hver er stefnan? Enginn talar um hana og ég er svo sannarlega ekki að segja að það eigi að vera lítil hátæknisjúkrahús — mér leiðist það orð reyndar — úti um allt land. Ég er að tala um grunnþjónustu við borgarana. Ég er að tala um hluti eins og: Eiga öll börn að fæðast í Reykjavík? Eiga öll gamalmenni að deyja í Reykjavík? Hefur sú ákvörðun verið tekin? Það snertir fólk úti um allt land, þetta er ekki bara ákvörðun um að byggja spítala heldur er þetta spurningin um forgangsröðun fjármuna þegar við eigum þá ekki til.

Umræðan er tekin í bútum. Sagt er: Ekki er verið að skuldbinda ríkissjóð núna, ekki er verið að taka ákvarðanir um fjárveitingar núna. Svo vitum við nákvæmlega hvernig það fer. Á einhverjum tímapunkti, og ég held að við séum reyndar komin þangað miðað við hvernig talað er, en svo er sagt: Búið er að verja svo miklum fjármunum í verkefnið nú þegar að við getum ekki hætt við.

Ég segi: Það er ekki byrjað að byggja, við þurfum ekki að hætta við, við þurfum að draga andann og hafa kjark, af því að talað var um kjark, til þess að horfa á þessa ákvörðun og spyrja okkur: Erum við algjörlega sannfærð um að þetta sé verkefni sem við ætlum að klára núna og forgangsraða þar með fjármunum ríkissjóðs með þeim hætti að það verði mjög þröngt í búi, ekki bara í heilbrigðisþjónustunni heldur líka í öðrum verkefnum ríkissjóðs?

Nefnt er í umræðunni að auðvitað þurfi að fara í framkvæmdir við núverandi Landspítala ef ekki verður tekin ákvörðun um að byggja annan. Að sjálfsögðu þyrfti að gera það. Mig langar að spyrja hvort fyrir liggi nákvæm kostnaðaráætlun um það hversu mikla fjármuni þurfi og á hvaða árabili, vegna þess að í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofunnar segir að ekki sé lagt mat á það.

Með leyfi forseta:

„Hér er ekki lagt mat á það þar sem þessari umfjöllun er einungis ætlað að gefa til kynna líklegt umfang uppbyggingarverkefnisins sem umræddu hlutafélagi ríkisins væri falið að hafa með höndum samkvæmt frumvarpinu.“

Ekki hefur ekki verið lagt mat á það samkvæmt þessu og getur vel verið að þær upplýsingar liggi fyrir einhvers staðar annars staðar. Hvað er áætlað að þurfi mikla fjármuni til þess að gera endurbætur á spítalanum og á hvaða árabili? Segjum að við mundum taka ákvörðun um að bíða með verkefnið í fimm ár og greiða niður skuldir ríkissjóðs. Eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði er vaxtakostnaður ríkissjóðs núna 90 milljarðar á ári, ef mig misminnir ekki, þannig að það eru stórar upphæðir og ekki byggjum við spítala fyrir þær á meðan.

Ekki hefur komið svar frá hæstv. ráðherra, hún vék sér fimlega undan því að svara því af hverju málið komi svona seint fram. Ég tek undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem er mikill stuðningsmaður þessarar framkvæmdar, að þetta er vont vegna þess að þetta skapar til tortryggni og miklu meiri hættu á mistökum. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson sagði að það væri alsiða að mál kæmu hér og væru afgreidd á færibandi rétt fyrir þinglok. Já, því miður gerist það allt of oft. Hversu oft höfum við ekki þurft að leiðrétta mistök, stundum mikil mistök, stundum minni mistök, einmitt vegna þess að málin hafa ekki fengið næga umfjöllun? Það er ekki nóg að segja að málið sé búið að vera í umræðunni í langan tíma. Þingið, löggjafarvaldið, fjárveitingavaldið fær þetta mál inn og við ræðum það nú þegar sjö þingdagar eru eftir og einhverjir nefndadagar. Það er óásættanlegt.

Ég verð að viðurkenna að mér þykir það mjög óábyrgt og það hefur ekkert með kjark að gera. Ég vil líka gera athugasemd við orð hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar þegar hann svaraði þeirri athugasemd minni sem ég gerði varðandi áætlanir á opinberum framkvæmdum. Ég sagði að við vissum nákvæmlega að það væru miklu meiri líkur á að kostnaðaráætlunin upp á 85 milljarða, sem verið er að tala um að framkvæmdin gæti kostað brúttó, stæðist ekki. Þá svaraði hv. þingmaður: Það kann vel að vera, en við látum ekki framtíð íslenskrar heilbrigðisþjónustu stoppa vegna ónógra áætlana. Jú. Ég segi: Við skulum hinkra með byggingu nýs spítala ef áætlanirnar eru ekki nægar. Hv. þingmaður bætti við: Við förum ekki að láta áætlanir og framtíð íslenskrar heilbrigðisþjónustu stoppa af því að við þorum ekki að taka þessa ákvörðun.

Þetta snýst bara alls ekki um það að þora. Þetta snýst um það að vinna verkin vel, að gera þær áætlanir sem gera þarf, að skoða málið heildstætt út frá heilbrigðispólitík og út frá þjóðhagslegri hagkvæmni og út frá því að við erum með íbúðabyggð á öllu landinu.

Hvað á að gera við alla þá spítala sem byggðir hafa verið upp, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi? Hvað á að gera við alla þá fjárfestingu sem þegar hefur verið lagt í? Nú hefur verið talað um að huga þurfi að því að rífa fullbúna, ónotaða skurðstofu suður í Keflavík sem ekki mátti nota vegna kergju núverandi ríkisstjórnar. Nú er verið að tala um að rífa hana. Ég veit til þess að tæki þaðan hafi verið lánuð annað þar sem þeirra er þörf og á meðan glímir Landspítalinn við sýkingarvandamál, eins og talað var um áðan.

Væri þá ekki skynsamlegt í núverandi ástandi að athuga hvort ekki sé alla vega hægt að færa sjúklingana frá þeim svæðum þar sem byggingarnar eru ekki fullbúnar? (Velfrh.: Það var gert.) Það var gert, segir hæstv. velferðarráðherra. Það hefur ekki verið mikið rætt um það í fjölmiðlum.

Af hverju er móðurskipið yfirfullt? Er það kannski vegna þess að því hafa verið falin allt of mörg verkefni miðað við núverandi húsakost, miðað við þá fjármuni sem til eru, og að á endanum birtist ekki sú hagræðing sem menn lögðu upp með vegna þess að málið er ekki hugsað til enda?

Virðulegi forseti. Mál er núna á leiðinni í nefnd. Ég treysti því að hæstv. velferðarráðherra, sem hér situr, beiti sér fyrir því að málinu verði ekki hraðað í gegnum þingið, keyrt hér í gegn, án þess að fyrir liggi öll þau gögn og allar þær áætlanir sem beðið er um. Á það hefur verið bent að þetta er ekki eina málið sem liggur fyrir þinginu. Ég veit ekki betur en að hæstv. velferðarráðherra hafi komið hér með lítið mál, endurskoðun almannatryggingakerfisins, ég veit ekki hvort það er á dagskrá, það er ekki enn þá búið að mæla fyrir því. Á það að klárast? Hv. nýkjörinn formaður Vinstri grænna sagði í útvarpsviðtali í síðustu viku að til stæði að klára málið fyrir þinglok. Það er ekki enn þá búið að mæla fyrir því og það eru sjö dagar eftir af þinginu til að ræða málið, fyrir utan nefndadaga, að ég tali nú ekki um stjórnarskrána, að ég tali nú ekki um fiskveiðistjórnina, öll þau mál. Það sér hver heilvita maður að þetta gengur ekki upp og mun ekki skila sér í góðri lagasetningu.

Vegna þess að hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson talaði um að það væri ekki góð nýting á starfsfólki að þvælast á milli staða á spítalanum eins og hann er núna, sem er örugglega alveg rétt, vil ég gefa annað dæmi um lélega nýtingu á starfsmanni: Við Heilbrigðisstofnun Suðurlands er einn sjúkraliði á vakt til að sinna heimaþjónustu og heimahlynningu aldraða eftir lokun klukkan fjögur. Viðkomandi hefur stórt umráðasvæði og getur ekki hlaupið á milli staða. Á fimm tíma vakt fara tveir tímar í akstur, þannig að ef um er að ræða sjúkling eða aldraðan einstakling sem þarf að fá aðstoð við að komast í rúmið er það stundum veruleikinn að honum er úthlutaður tími: Þú færð að pissa fyrir svefninn klukkan átta (Forseti hringir.) vegna þess að þá verð ég akkúrat á ferðinni.

Það finnst mér líka léleg nýting á starfsfólki og nokkuð sem þarf að huga að.