141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er langþráð að hafa hér tækifæri til að ræða málefni nýs Landspítala. Mig langaði að heyra aðeins í hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur sem fór hér ágætlega yfir afstöðu sína. Hún telur verkefnið í sjálfu sér þarft en eðlilegt sé að fresta því vegna bágrar stöðu í ríkisfjármálum.

Nú vill þannig til að Sjálfstæðisflokkurinn er nýkominn út af landsfundi þar sem var mikið rætt um mikilvægi þess að lækka skatta, sem ég þarf náttúrlega ekki að taka fram að ég er algjörlega andsnúin í ljósi núverandi stöðu í ríkisfjármálum. En ef við setjum það til hliðar og horfum á annað mikilvægt loforð Sjálfstæðisflokksins sem á kannski að vera og virðist vera forsenda fyrir því að hægt sé að fara í skattalækkanir, er það að auka fjárfestingar til að efla veltu í samfélaginu og auka hagvöxt.

Þess vegna langaði mig til að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að fjárfesting sem þessi kunni að ríma við þá stefnu Sjálfstæðisflokksins. Er þetta ekki einmitt eitt af þeim mikilvægu fjárfestingarverkefnum sem hægt er að fara í til að örva hagkerfið? Fram hefur komið að þetta muni auka landsframleiðslu um 0,23% og framkvæmdin mun jafnframt skapa 600–700 ný ársverk. Mér þætti áhugavert að heyra hvort þetta sé ekki einmitt í anda þess sem flokkur hv. þingmanns hefur boðað.