141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var talað um nauðsyn þess að auka fjárfestingar og verðmætasköpun. Hér er um að ræða opinbera framkvæmd, þær eru góðar með, en það sem gerist hér er að við erum að fara í framkvæmdir sem við eigum ekki fyrir. Við þurfum að taka lán fyrir þeim, við þurfum að borga mikinn kostnað af því láni, og eins og fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofunnar mun þetta líka bitna á öðrum framkvæmdum, svo sem samgönguframkvæmdum eða annarri innviðafjárfestingu ríkissjóðs, vegna þess að ríkissjóður getur ekki eytt sömu krónunni tvisvar. Þetta snýst því um forgangsröðun verkefna.

Ég skal segja hv. þingmanni hvar ég tel að við getum aukið fjárfestingar. Það er í einkageiranum. Ég tel að þar höfum við mikil tækifæri. Við höfum til dæmis óbyggt álver í Helguvík. Þegar sú framkvæmd er komin í gang skilar hún 1 milljarði á mánuði í tekjur í ríkissjóð, 12 milljörðum á ári. Við erum með aðrar framkvæmdir og ég hef fulla trú á að þegar við erum komin með ríkisstjórn sem býður fjárfesta velkomna en hrindir þeim ekki í burtu, þegar við erum komin með skattstefnu sem laðar að fyrirtæki en fælir þau ekki í burtu, fáum við fjölmörg fjárfestingartækifæri.

Ég vil ítreka að ég var hlynnt þessari fjárfestingu þegar ég taldi að við ættum fyrir henni, þegar við vorum með peninga í sjóði, en sá peningur er ekki til. Þess vegna tel ég (Forseti hringir.) að þetta sé ekki sú framkvæmd sem við eigum að vera að forgangsraða fjármunum í í augnablikinu.