141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú greinir okkur á, vegna þess að í stjórnarskránni stendur: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“ Það getur ekki verið einhver opin heimild. Hún hlýtur að vera talin upp í krónum og aurum, hún hlýtur að vera nefnd. Það þýðir ekki, eins og menn hafa verið að leika sér með, að fara í gegnum 6. gr. Ég er eindregið á móti þeirri aðferð, eindregið. Við sjáum það bara með Hörpu. Ríkissjóði var heimilt að gera samning við eitt fyrirtæki, Portus, minnir mig að það heiti, ekkert annað. Og um leið var allt í einu komin 35 milljarða skuldbinding á skattgreiðendur í Reykjavík og skattgreiðendur um allt land, 35 milljarðar á grundvelli einhverrar lítillar setningar sem fór því miður, herra forseti, fram hjá mér á þeim tíma. Það voru mín risamistök að ég gerði mér ekki grein fyrir því að maður gæti notað 6. gr. til þess að plata skattgreiðendur með þessum hætti.

Svo gerist það að allar áætlanir — og talandi um áætlanir, við fáum einungis sjö daga, nefndin fær sjö daga til að fara í gegnum allar áætlanir, hvort þær séu réttar. Það er náttúrlega móðgun við Alþingi. Það er ekki hægt að senda málið til umsagnar, það þarf að fá gesti og þeir þurfa að koma með litlum fyrirvara til að segja hvort þessi áætlun standist eða ekki.

Ég minni á að samþykkt var fjárveitingu til Hörpu eftir að búið var að afskrifa 10 milljarða, sem tapaðist í hruninu, af erlendum kröfuhöfum. Þá stendur málið þannig með Hörpu eftir allar þær áætlanir og allt það sem gert var að heilmikið af fjármunum vantar til að halda henni gangandi.

Hvað skyldi gerast með þá 44 milljarða sem þetta verkefni á að kosta? Og hvað skyldi gerast með sparnaðinn sem á að koma af þessu? Ég geri mér grein fyrir að ef maður sameinar stofnanir, eins og við að taka blóðprufur og annað slíkt, þá er sparnaður í því. En það er ekki svo voðalega einfalt að gera það.