141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek fram að ég er fremur jákvæður í garð þess verkefnis sem hér er um að ræða. Ég tel að raunveruleg vandamál séu varðandi húsnæðismál Landspítalans sem þurfi að leysa. Ég er ekki að deila um það við hv. þingmann.

Mér finnst hins vegar alveg gríðarlega óábyrgt hjá hæstv. ríkisstjórn að koma með málið inn tveimur vikum áður en þinginu á að ljúka. Í greinargerð með málinu og í áliti fjárlagaskrifstofu er að finna fjölmargar ábendingar um atriði sem þurfi að skoða. Ég segi fyrir mig: Ef menn ætla fjárlaganefnd tímann fram á þriðjudag í næstu viku til að ljúka því verki finnst mér óraunsæið keyra um þverbak.