141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að taka þessa umræðu, ekki vegna okkar sem erum í þessu húsi heldur þjóðarinnar. Því miður hefur núverandi ríkisstjórn fullkomlega mistekist að hafa pólitíska forustu um þetta mál. Það er ekki hægt að fara í þetta verkefni án þess að almenningur skilji til hvers er verið að gera það, það er bara ekki hægt. Við verðum að taka umræðu um hvaða vandamáli við erum að taka á og hvernig við ætlum að leysa það. Það er vægast sagt dapurlegt að fá þetta mál inn á síðustu dögum þingsins, á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn er búin að segja að hún ætli að keyra í gegn risamál. Ef hugmyndin er sú að reyna að keyra þetta í gegn þannig að það falli í skuggann af einhverjum öðrum deilumálum þá er það afskaplega mikil skammsýni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Verkefnið er einfaldlega þetta: Við erum 300 þús. manna þjóð. Við erum með einn landspítala sem er í húsnæði á 17 stöðum. Aðalhúsnæðið er frá 1930. Þar er líka húsnæði frá 1960, þá er ég að tala um Hringbraut. Nýjasta húsnæðið er Barnaspítalinn. Borgarspítalinn var byggður 1965, ef ég man rétt, og viðbygging hans 1980. Það er augljóst og allir vita að það þarf að endurnýja þetta húsnæði.

Í ofanálag er þjóðin að eldast. Hvað þýðir það? Það þýðir aukið álag á heilbrigðisþjónustuna. OECD hefur það viðmið að þeir sem eru 60 ára og eldri kosti tvöfalt meira. Ég gerði einfalda úttekt á þessu þegar ég var í stóli heilbrigðisráðherra og kannaði hver kostnaðurinn var, þ.e. hvernig hann skiptist, varðandi 60 ára og eldri á Landspítalanum sem var þá ef ég man rétt 30% af sjúklingunum. Kostnaðurinn við þessi 30% af sjúklingunum var 50% af rekstri spítalans. Því má segja að þegar við erum að tala um þjónustu við aldraða þá séum við að stærstum hluta að tala um heilbrigðisþjónustu.

Virðulegur forseti. Ég fer fram á að það verði hljóð hér í salnum þegar ég held þessa ræðu svo að ég heyri í sjálfum mér.

(Forseti (ÁÞS): Forseti mun freista þess að sjá til þess að það verði svo mikið hljóð að ræða hv. þingmanns heyrist.)

Við höfum fram til þessa haft heilbrigðisþjónustu sem við erum afskaplega stolt af. Það er ekki út af því að við höfum getað talað okkur upp í eitthvert stolt heldur hefur það sýnt sig tölfræðilega að við höfum náð mjög góðum árangri miðað við þær þjóðir sem eru með hvað besta heilbrigðisþjónustu. OECD-skýrslur sýna þetta og hver sem vill getur farið á vefinn og séð tölfræði OECD, þá sjáum við hvar við stöndum varðandi ýmsa þætti allt frá ungbarnadauða til lifunar eftir krabbameinsmeðferð o.s.frv.

Hins vegar sjáum við þau hættumerki að við erum með kostnað sem mun að öllu óbreyttu lenda meira á þjóðinni en áður hefur verið hvað heilbrigðisþjónustu varðar vegna breyttrar aldurssamsetningar.

Við erum með einhverja valkosti en almenna reglan er sú að þeir sem hafa skoðað málið hafa komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að setja starfsemi Landspítalans á einn stað. Af hverju er það skynsamlegt? Vegna þess að þá náum við hvað mestri hagræðingu. Í hverju felst þessi hagræðing? Hún felst til dæmis í því að þegar við sameinum deildir og skurðstofur getum við haldið uppi nýtingu með minni mannafla.

Nú erum við í þeirri stöðu að það er jafnvel erfitt fyrir okkur að fá fólk heim úr námi út af efnahagsástandinu. Það er því enn meiri þörf en áður að nýta starfsfólkið hvað best. Þetta snýst ekki bara um fjármuni, þetta snýst líka um að við gætum lent í því að mannafla vantaði þó að það sé minna áríðandi eða minna vandamál í spítalarekstrinum — stærsta vandamálið varðar heilsugæsluþjónustuna, en ég ætla ekki að ræða það hér.

Þegar við skoðum tölur varðandi þennan spítala sjáum við til dæmis að gert er ráð fyrir 12 milljörðum í tæki og kaup. Þetta snýst ekki um að við ætlum vera með fín og dýr tæki sem enginn annar hefur, þetta snýst einfaldlega um eðlilega endurnýjun á tækjum sem við viljum hafa til að hafa hér heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Nú er svo komið að ef við förum ekki þá leið að byggja nýjan spítala þurfum við að byggja utan um mörg ný tæki, t.d. PET-skanna sem krabbameins- og blóðsjúkdómasjúklingar þurfa að nota en þeir þurfa að sækja þessa þjónustu til Kaupmannahafnar ef þeir hafa heilsu til. Það er einfaldlega ekki hægt að koma tæki eins og þessu fyrir í því húsnæði sem er til staðar núna, enda sér það hver maður, virðulegi forseti, ég tala nú ekki um húsnæði frá árinu 1930, að aðstæður hafa breyst mikið. Í minni tíð sem heilbrigðisráðherra neyddist ég til þess — og ég segi neyddist — að fara út í byggingu við gjörgæsluna. Þá fórum við út í bráðabirgðahúsnæði og peningarnir voru til skamms tíma, en við erum að horfa á vanda sem snýr meðal annars að því að þær stofur sem voru byggðar, hvort sem það var 1930 eða 1960, taka ekki mið af nútímaþörfum. Þetta snýst ekki um flottræfilshátt eða neitt slíkt. Þetta snýst um öðruvísi aðstæður, við erum komin með öðruvísi tæki, sjúkrarúm o.s.frv.

Í þeim úttektum sem hafa verið gerðar hafa orðið miklar breytingar eftir að bankahrunið varð. Þegar bankahrunið varð féllst ég á tillögu Huldu Gunnlaugsdóttur, þáverandi forstjóra Landspítalans, sem var nýkomin frá því verkefni að koma að spítalabyggingu í Noregi, að fá þá aðila sem að því komu til að endurmeta verkefnið. Þeir komu með hugmyndir og sömuleiðis úttektir á því hvað kostaði að gera ekki neitt, eins og það er kallað, eða fara aðra leið með því að hafa einn spítala. Allt þetta liggur fyrir og niðurstaðan varð sú að hægt væri að ná 7% hagræðingu sem ætti að nýta til að greiða fyrir hina svokölluðu leiguleið. Nú breytir engu hvaða leið við förum því að við verðum að ná hagræðingu í rekstrinum til að geta greitt fyrir þennan spítala. Eftir því sem ég best veit, miðað við spurningar og þau svör sem ég hef fengið frá hæstv. fjármálaráðherra, er hugsunin enn hin sama, þ.e. að ná hagræðingu í rekstri spítalans til að greiða fyrir nýja byggingu. Það getur vel verið að mörgum finnist þetta vera ótrúlegt en það er bara þannig að frá því að stjórnun varð fagleg á spítalanum — ég veit að þetta var mikið verkefni — hefur spítalinn staðið sig betur rekstrarlega en áður. Frá því að fagleg stjórn tók við árið 2007 eða 2008 á spítalanum hafa áætlanir gengið eftir, bæði undir forustu Huldu Gunnlaugsdóttur og Björns Zoëga, fjárhagsáætlanir, sömuleiðis faglegar áætlanir og biðlistar hafa styst, alla vega um tíma, og afköst aukist. Eftir hinn mikla niðurskurð hefur samt sem áður verið hægt að halda uppi þjónustu þó svo að við séum sannarlega farin að finna fyrir niðurskurðinum og hefðu menn betur haft hugrekki til þess að forgangsraða, sem er nauðsynlegt, þannig að hægt væri að bjóða upp á þá þjónustu sem við viljum hafa.

Hér hafa komið fram málefnaleg rök hjá hv. þingmönnum sem eru með efasemdir um byggingu nýs spítala. Ég held að það sé afskaplega óskynsamlegt að berja sér á brjóst og segja að þetta snúist um hugrekki, segja að það sé löngu búið að taka þessa ákvörðun o.s.frv. því að ef hv. þingmenn eru ekki meðvitaðir um það af hverju við eigum að fara í þetta, hverju það skilar og hvaða afleiðingar það hefur þá á það sama við um almenning. Það verður að koma öllum upplýsingum til fólksins í landinu hvað þetta verkefni varðar. Þetta er mjög stórt verkefni og mjög mikilvægt. Ef við komumst að þeirri niðurstöðu á einhverjum tímapunkti að við viljum ekki fara þessa leið þá verðum við að segja hvað við ætlum að gera annað því að þetta snýst ekki um einstakan hóp manna, þetta snýst ekki um heilbrigðisstarfsmenn, þetta snýst svo sannarlega ekki um Reykvíkinga, íbúa höfuðborgarsvæðis, heldur snýst þetta um alla landsmenn. Ef við glutrum niður þeim háa standard sem við höfum á heilbrigðisþjónustunni þá er mjög erfitt að ná honum upp aftur. Það er til dæmis afskaplega mikilvægt að í þessu samhengi sé hugsað um Landspítalann því að eðli málsins samkvæmt hangir öll þjónustukeðjan saman.

Mikið hefur vantað upp á stefnumótun í heilbrigðismálum í tíð núverandi ríkisstjórnar og er sorglegt að ríkisstjórnin hafi fjórum sinnum stoppað gildistöku frumvarps um sjúkratryggingar. Nú kynni einhver að halda að það væri sérstakt óskabarn okkar sjálfstæðismanna, en síðast þegar ég vissi var það bæði í stefnuskrá Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins og það sem meira er að þær aðferðir, að semja sérstaklega um heilbrigðisþjónustu og það á við um heilbrigðisþjónustu um allt land, hafa skilað sér í betri afköstum og lægri tilkostnaði.

Þegar menn skoða núna úttekt The Economist á norrænu löndunum en þar eru Íslendingar ekki inni, menn eru að skoða Svíþjóð, Noreg, Danmörku og Finnland, þá er verið að vísa til þess að árangurinn sem Norðurlöndin hafa náð og The Economist telur að aðrar þjóðir eigi að fylgja eftir hefur komið fram í slíkum opinberum rekstri, þ.e. að menn hafi farið vandaðri leið varðandi samningagerð, varðandi heilbrigðisþjónustu og samið við fleiri en einn aðila og aukið valkosti þar sem slíkt er fyrir hendi.

Virðulegi forseti. Þetta hangir allt saman. Það verður enginn sátt um það að færa alla heilbrigðisþjónustu inn á Landspítalann. Það er ekki aðeins að það verði ekki nein sátt um það, það er ekki skynsamlegt. Það er nefnilega ekki hagstætt að gera allt á Landspítalanum. Í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar náðum við til dæmis mjög miklum árangri í að ná niður kostnaði augnsteinaaðgerða. Þá var farið nákvæmlega eftir þeirri hugmyndafræði sem á við um Sjúkratryggingar Íslands. Þá var kannað hver kostnaðurinn var við hverja augnsteinaaðgerð á Landspítalanum. Hún var 220 þús. kr. Á endanum náðust samningar um að hver aðgerð skyldi kosta um 70 þús. kr. Þannig náðum við biðlistum niður. Þá var samið við fimm aðila, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á Akureyri.

Það er mjög skiljanlegt að hingað komi hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir og sé ósátt við að hæstv. ríkisstjórn hafi stöðvað þær fyrirætlanir sem voru uppi um að leigja út skurðstofur á Reykjanesi. Þar fór tækifæri. Það er kannski rétt hjá hæstv. ráðherra Guðbjarti Hannessyni að þegar hann tók við embætti hafi það tækifæri ekki verið lengur til staðar, en það var til staðar á þeim tíma og ef við hefðum farið þá leið væru örugglega meiri möguleikar fyrir hið opinbera að semja um skurðaðgerðir og allra handa aðgerðir sem hefði verið hægt að framkvæma þar. Einnig hefðum við séð starfsemi á þeim stað þar sem er hvað mest atvinnuleysi á landinu. Það var því miður ekki gert. Ég legg hins vegar áherslu á það.

Ég tek þetta allt saman fram hér vegna þess að það skiptir máli. Það er ekki hægt að ræða þetta einangrað. Það verður að ræða um nýbyggingu Landspítalans í samhengi við heilbrigðisþjónustu á landinu. Það verður að leggja fram allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að aðilar sannfærist um ágæti þess að við förum þessa leið.

Ég ætla ekki að skammast meira út í núverandi ríkisstjórn, sem betur fer er hún að fara. Við sitjum hér og það eru nokkrir dagar eftir af þinginu. Ef hæstv. ríkisstjórn meinar að hún vilji setja heilbrigðisþjónustu í forgang hljóta menn að setja þetta mál í forgang síðustu daga þingsins en ekki önnur minna mikilvæg mál sem er alveg ljóst að munu ekki fara í gegn þrátt fyrir að slegist verði í þingsal.