141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú tel ég þvert á móti að ekki sé slík andstaða við málið eins og hv. þingmaður lýsti. Það hafa verið mjög deildar meiningar um þetta mál, mestmegnis vegna skipulagsmála í Reykjavík í nærumhverfi við sjúkrahúsið. Ég ætla ekki að gera lítið úr áhyggjum íbúanna þar en þau mál hafa verið leidd til lykta. Við munum halda áfram að tala fyrir málinu.

Þá vil ég líka að fram komi að þegar málið var hjá þinginu síðast var kveðið á um að það kæmi aftur til þingsins að loknu útboði og þá skyldi leita samþykkis Alþingis. Við erum ekki komin að því skrefi. Við erum nefnilega að gera litla formbreytingu. Að því skrefi kemur, það á eftir að koma að því. Sú ítarlega umræða sem kallað var eftir að yrði í þinginu mun fara fram þegar útboð hefur farið fram.

Ég fór yfir það áðan að tímasetja þyrfti framkvæmdir og áfangaskipta og meta hvernig hægt verði að raða þeim niður þannig að það verði í samræmi við ríkisfjármálaáætlun. Ég sagði líka að ég sem formaður velferðarnefndar og sem fulltrúi Samfylkingarinnar, sem er velferðarflokkur, legði mikla áherslu á að þetta mál yrði klárað svo hægt væri að halda áfram undirbúningi óhindrað.

Það er fjöldinn allur af málum sem ég tel persónulega mikilvægt að ljúka. Þetta er eitt af þeim allra mikilvægustu. Það verður bara að leysast á öðrum vettvangi hvernig sú forgangsröðun fer fram.