141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta frumvarp kemur einmitt því til leiðar að þessi framkvæmd, verði af henni, verði ekki utan efnahagsreiknings ríkisins heldur innan. Ég fór yfir það í máli mínu að nú verði farið rækilega yfir allar tímaáætlanir og mögulega áfangaskiptingu verkefnisins. Það þarf að taka ákvörðun um það hvernig og á hvaða tíma við getum farið í þessar framkvæmdir til að ríkissjóður þoli það.

Það vill þannig til að þetta er ekki gæluverkefni af einhverjum toga. Þetta snýst um framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins. Þetta snýst um höfuðsjúkrahús Íslands sem er nú þegar staðsett við Hringbraut. Ef við förum ekki í þetta verkefni mun þurfa að fara í einhverjar aðrar framkvæmdir á þessu svæði og mun umfangsmeira og dýrara viðhald en ella þyrfti ef þessar framkvæmdir yrðu óbreyttar að veruleika. Það er ekki verið að plata neinn varðandi kostnað. Hér kemur fram hver kostnaðurinn við þessa framkvæmd mun verða og það á eftir að koma nákvæmar fram. Við erum ekki að taka ákvörðun um að fara út í þann kostnað hér og nú. Það er einmitt farið yfir það í frumvarpinu að stíga þurfi varlega til jarðar og fjárlagaskrifstofan fer ítarlega yfir að þetta þurfi að passa, skoða þurfi áætlanirnar með ríkisfjármálaáætlun í huga.