141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:58]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum hér að tala um gamlan kunningja og það er ekkert nýtt að koma fram í þessari umræðu, við höfum heyrt hana alla áður og margoft. Það er lítið nýtt að koma fram að mínu mati. Þetta mál gengur einungis út á það, eins og hefur komið fram í þessari umræðu, að breyta um fjármögnunarleið á ákvörðun sem er löngu búið að taka pólitískt. Ég vil rifja það upp að margir hafa komið að þessu máli og ég vil nefna sérstaklega nokkra hæstv. ráðherra sem hafa gert það.

Ég vil nefna hæstv. ráðherra Ingibjörgu Pálmadóttur, Jón Kristjánsson, þá er hér stendur, Guðlaug Þór Þórðarson, Álfheiði Ingadóttur, Ögmund Jónasson og Guðbjart Hannesson. Þetta eru sjö ráðherrar sem gegnt hafa stöðu heilbrigðisráðherra og síðar velferðarráðherra og ég tel að allir þessir hæstv. ráðherrar, sem koma úr fjórum flokkum, hafi sýnt pólitíska forustu í þessu máli, þeir hafi hvergi hikað í málinu. Þeir hafa ýtt á eftir þessu verkefni og þess vegna er það nú komið þangað sem það er í dag og hefði verið komið lengra hefðum við ekki lent í bankahruni. Þá væri þessi bygging hugsanlega risin í dag og hefði verið sómi að. Það hefur verið frekar góð þverpólitísk samstaða um þetta mál og því er okkur ekkert að vanbúnaði, við eigum að byggja þetta nýja þjóðarsjúkrahús.

Hér hefur mikið verið rætt um fjármál en mér finnst eins og hv. þingmenn sjái ekki alveg heildarsamhengið í því dæmi. Þeir sem hafa kafað ofan í kostnað í heilbrigðiskerfinu vita að sá kostnaður felst ekki í byggingunum, alls ekki. Hann felst í þjónustunni sem þar fer fram innan dyra, inni í byggingunum. Skelin, steypan, skiptir ofboðslega litlu máli í heildarsamhenginu, þannig að menn skulu ekki tapa sér í umræðunni um kostnaðinn við skelina, kostnaðinn við bygginguna.

Kostnaðurinn við að reka Landspítalann er 70% laun, þetta er eiginlega langmest laun. Svo eru lyf, eitthvert viðhald o.s.frv., þetta eru mest laun, rekstrarkostnaðurinn. Skelin kostar lítið. Á Landspítalanum kostar reksturinn á ári í kringum 40 milljarða, það er það sem er að fara þarna í gegn. Byggingarkostnaðurinn á skelinni sem við erum að ræða er 45 milljarðar, það er nærri lagi miðað við það sem kemur fram á bls. 13, þannig að þetta er svona eins og rekstrarkostnaðurinn á einu ári, ekki satt. Rekstrarkostnaðurinn á einu ári, þetta er nú ekki merkilegra en það.

Hvað segja þeir sem hafa reynslu af því að byggja svona nýjar byggingar? Það verður hagræðingarkostnaður við nýjar byggingar og stundum er rifist um hvað hann sé mikill. Margir nefna 10%. Ef það er rétt eru þetta 4 milljarðar á ári. Við skulum lækka þá tölu og segja að 3 milljarðar sparist á ári í nýrri byggingu. Þá erum við að ná til baka þessum peningum sem fara í skelina á 15 árum, með sparnaði sem verður í þessum rekstri innan dyra, sem er aðalkostnaðurinn. Þessu erum við því að ná til baka á frekar stuttum tíma. Það er borðleggjandi dæmi að gera þetta, en það er fáránlegt að gera þetta ekki. Einhver orðhvatur mundi segja að þetta væri bara myljandi gróði, væri bara gullmylla að gera þetta.

Ef maður yfirfærir þetta á fjölskyldu, sem er kannski ekkert sanngjarnt að gera en bara til þess að setja þetta í eitthvert samhengi — tökum fjögurra manna fjölskyldu, hvað ætli hún kosti í rekstri á ári? Segjum bara 8 milljónir, eitthvað svoleiðis, kostar að reka fjögurra manna fjölskyldu. (Gripið fram í.) Ef við reiknum það upp að þessi fjölskylda þurfi að kaupa sér íbúð þá kaupi hún íbúð sem er aðeins meira en rekstrarkostnaðurinn á þessari fjölskyldu, ef þetta er eins og spítali. Segjum að íbúðin kosti um 11 milljónir fyrir þessa fjölskyldu. Þetta er alveg hræbilleg íbúð, hræbillegt hús í samhengi við rekstrarkostnaðinn á því sem fer fram inni í því. Og hvað þá þegar fjölskyldan lækkar rekstrarkostnað sinn um kannski 10% á ári á næstu árum. Þessi fjölskylda flytur strax inn í þessa nýju íbúð, kaupir hana um hæl og kemur mjög vel út úr þessu.

Að mínu mati finnst mér að það vanti svona heildarsamhengi varðandi fjármálin í þetta og að ná fram þeim skilningi að það er dýrara að gera þetta ekki. Ég tími ekki fjármunum skattborgaranna í viðhaldið á núverandi húsnæði, ég tími því ekki. Þá vil ég miklu frekar byggja nýtt, ná niður rekstrarkostnaðinum, ná hagræðingunni fram og fá miklu betri þjónustu, minni sýkingar o.s.frv. og öll þau rök frekar en að kasta peningunum í viðhald á húsi sem er löngu úrelt. Ég tel mjög brýnt að fara í þessa byggingu og að Íslendingar eigi bara heimtingu á því. Ég tel að við eigum að viðhalda öflugu heilbrigðiskerfi og öflugri heilbrigðisþjónustu í góðu húsnæði. Mér finnst reisn yfir því að byggja þetta hús.

Ég mun ekki víkja frá þeirri skoðun minni nema einhver geti sannfært mig um annað, og ég sé bara ekki þau rök. Þessi rök með framtíðarskattpeninga borgaranna, ég blæs á þau. Það er gróði að byggja þetta hús, þetta verður ódýrara í rekstri. Við getum tekið inn ný tæki sem við getum ekki í dag, þau eru of stór, þau komast ekki inn í þessi hús. Við verðum bara að senda sjúklingana út í þá meðferð þangað til við getum hýst þessi nýju tæki sem munu koma, þau munu koma. Ég tel þetta mjög hagkvæmt og sjúklingar framtíðarinnar eiga heimtingu á þessu ekki síður en starfsfólkið sem þarna mun vinna, starfsfólk sem margt velur sér vinnustað eftir aðbúnaði. Við erum með talsvert af hjúkrunarfræðingum og læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki sem bíður erlendis og mun frekar koma heim þegar þetta hús er risið.

Höldum áfram þeirri pólitísku forustu sem Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri grænir hafa sýnt í þessu máli og klárum þetta mál. Það er löngu búið að tæma umræðuna að mínu mati, hér er einungis farið tæknilega úr einni fjármögnunarleið yfir í aðra og úr leið sem var mjög gagnrýnd, þannig að við erum að fara í leið sem er minna gagnrýnd. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu af minni hálfu að samþykkja þetta mál og tala fyrir því.