141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[23:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er mikilvægt að við höldum okkur við það sem hv. þingmaður kom inn á hér í restina, í raun og veru er þetta tæknilegt mál, ef ég má nota það orð, verið er að breyta fjármögnuninni úr því að vera algjör einkaframkvæmd, eða svokölluð leiguleið, og skipta henni upp í opinbera framkvæmd og hugsanlega að hluta til í einkaframkvæmd eða leiguleið. Flóknara er þetta svo sem ekki.

Mig langar að bregðast við orðum hv. þingmanns. Við eigum kannski ekki að taka þessa umræðu núna heldur þegar menn taka ákvörðun um að fara í þessar framkvæmdir og þá væntanlega við gerð fjárlaga á hverjum tíma. Þegar það verður gert þá verðum við líka að átta okkur á því að við þær forsendur sem hér um ræðir, þar sem búið er að vinna um 20 eða 25% af hönnuninni við framkvæmdirnar, eru settir miklir fyrirvarar. Annars vegar snúa þeir fyrirvarar að viðhaldsframkvæmdinni, hún hefur ekki verið greind eins og hin. Menn segja: Jú, við gerum mun meiri fyrirvara við þær tölur sem þar eru. Hitt snýr að óvissu á byggingamarkaði og þeirri stöðu sem undirbúningurinn og hönnun framkvæmda er komin í að þá er gert ráð fyrir því, og settur fyrirvari inn í tölurnar, að annars vegar getum við verið að tala um mínus 10% eða plús 15%, þannig að þetta er 25% sveifla. Við höfum reynslu af mörgum opinberum framkvæmdum og er nærtækast að nefna viðbygginguna eða annan áfanga við Vatnajökulsþjóðgarð sem fór langt út á tún, gríðarlega mikið, þannig að við þurfum auðvitað að hafa það í huga. Það er kannski umræða sem við verðum að fara í þegar við tökum endanlega ákvörðun um hvernig við förum í verkefnið sem slíkt.