141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[23:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann í fyrra andsvari mínu en kom því ekki að vegna tímaskorts — mig langaði að spyrja hv. þingmann, sem hefur töluverða reynslu af þessum málum sem heilbrigðisráðherra, hvort ekki þurfi að skilgreina heilbrigðisþjónustuna í heild sinni, ekki bara út frá Landspítalanum heldur í heild sinni. Þá er jafnvel spurning, eins og kemur fram í umsögninni, hvort menn vilji kannski færa hluta af henni yfir í einkarekstur. Ég er ekki endilega að tala fyrir því, heldur bara að skilgreina heilbrigðisþjónustuna í heild sinni eins og hún er. Við þekkjum þessa umræðu í tengslum við fjárlagaumræðuna þar sem verið er að búa til heilbrigðisstefnu og þjónustustig, en ég er að tala um að menn fari dýpra í þá vinnu.

Oft hefur orðið misskilningur en ég veit að hv. þingmaður gerir sér grein fyrir því. Hv. þingmaður segir: Það kostar 40 milljarða að reka Landspítalann. Sparnaðurinn af framkvæmdinni er um það bil 4 milljarðar, um 10%. Við vitum af þeim niðurskurði sem hefur orðið, um 5,3 miljarðar á síðustu fjórum árum, sem er 12%. Það hefur ruglað umræðuna og þegar málið var fyrst kynnt í fjárlaganefnd var það einmitt kynnt svona: Það kostar 40 milljarða að reka spítalann, við munum spara 10%. En þegar aftur var farið yfir málið nú í september í nefndinni var sagt: Ókei, það kostar 40 milljarða að reka spítalann. Ef við förum í framkvæmdina munum við halda okkur þar en kostnaðurinn mun aukast upp í 44 milljarða, vegna þess að þjóðin er að eldast og meira álag mun verða á heilbrigðiskerfið. Við þurfum öll að vera á sömu blaðsíðunni hvað þetta varðar, þannig að menn séu að ræða hlutina eins og þeir eru. Málið hefur verið lagt upp með tvennum hætti en það er mikilvægt að við förum yfir það og höfum öll sama skilninginn á því hvernig þetta er.