141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[23:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík, með síðari breytingum, opinber framkvæmd heitir það.

Ég hélt í einfeldni minni að við værum að taka ákvörðun um að byggja spítala en það er víst ekki. Samt er gert ráð fyrir því í áætlunum fjárlagaskrifstofunnar að settar verði í það 534 milljónir árið 2013. Það er búið að loka fjárlögum fyrir það ár. Það er búið að ákveða þau og ég veit ekki til þess að sú tala sé þar inni. Hvernig í ósköpunum getum við greitt þá upphæð? Mér sýnist það ekki hægt því að samkvæmt stjórnarskránni má ekki greiða peninga úr ríkissjóði. Það væri gaman að vita hvernig menn fóru að því að greiða þann kostnað sem hefur þegar fallið til við hönnun og annað slíkt og er 1,2–2 milljarðar. Ég fæ ekki séð hvernig það var hægt. (Gripið fram í.) Spurningin er nefnilega hvaða aðferðir menn notuðu við það.

Málið er (Gripið fram í.) að einhvern tímann verða menn að taka ákvörðun um að byggja spítala, ég hefði talið það. Um leið og menn taka ákvörðun um að byggja spítala, hvort sem menn túlka þetta frumvarp til þess eða ekki, falla að lágmarki til 44 milljarðar, 85 milljarðar ef klára á dæmið til enda. Mér finnst bara heiðarlegt að segja það.

Ég las umsögn fjárlagaskrifstofunnar og þar er sú merkilega setning, með leyfi frú forseta:

„Verði frumvarp þetta að lögum verður hlutafélaginu sem ríkið kom á fót vegna áforma um byggingu nýs Landspítala heimilað að standa að verkefninu í mynd hefðbundinnar opinberrar framkvæmdar. Í lögfestingunni felst þó ekki ákvörðun Alþingis um að heimila framkvæmdirnar né að veita fjárheimild til þeirra.“

Hlutafélagið gerir ekki neitt. Það getur ekki gert neitt því að það er ekki komin fjárheimild. Ég skil ekki þessa framkvæmd og hvað verið er að gera. Ég skil það ekki. Ég hefði viljað að menn væru búnir að nefna í fjárlögum eða fjáraukalögum hvað ætti fara í framkvæmdina. Hvað á starfsfólkið á spítalanum að halda núna? Það er ekkert verið að fara út í framkvæmdir og byggja spítala. (Velfrh.: Stíga skref.) Stíga skref, segir hæstv. velferðarráðherra. Það er ekki verið að stíga neitt skref því að hlutafélagið má ekki gera neitt fyrr en það fær fjárveitingu og boð frá Alþingi um að gera eitthvað.

Ég hélt að hæstv. fjárlaganefnd ætti að fara að velta fyrir sér sparnaði og kostnaði og öllu því en síðan segir í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, með leyfi frú forseta:

„Í þessu sambandi er rétt að benda á að rekstraráætlun um nýja húsakostinn hefur ekki verið lögð fyrir með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í lögum um opinberar framkvæmdir. Á þessu stigi eru því ekki fyrir hendi upplýsingar um hversu mikil kostnaðaraukning er talin verða í húsnæðisrekstrinum sem slíkum.“

Það liggur ekkert fyrir. Við hvað hafa menn verið að dunda allt kjörtímabilið? Það er komið rétt fyrir lok kjörtímabilsins, — Alþingi á eftir að starfa í sjö daga og ég veit að það á eftir að vinna heilmikið starf í nefndum og margir þingmenn eiga eftir að vinna um helgar — hvað hafa menn verið að gera? Það á ekki að fara að byggja spítala, til að það sé algjörlega á tæru. Annars væru menn komnir með fjárveitingar til þess í fjárlögum sem hefði náttúrlega átt að gera ef þeir ætluðu sér að byggja spítala upp á 44 milljarða o.s.frv. Þá hefðu starfsmennirnir getað tekið gleði sína en þeir geta það ekki af því að því er vísað yfir á næstu ríkisstjórn, hver sem hún verður eftir kosningar.

Svo er það spurningin hvað hefur verið að gerast með landsbyggðina og Reykjavík. Það er búið að loka skurðstofum á Suðurnesjum. Það er búið að loka spítala í Hafnarfirði. Það er verið að flytja verkefnin og fæðingar eru komnar hingað frá Vestmannaeyjum. Það er verið að flytja verkefni frá landsbyggðinni til Reykjavíkur á þennan ríkisspítala. Ég hef dálitlar áhyggjur af því að þegar kominn verður eitt stykki ríkisspítali á einum stað þurfi að fylla hann eins og menn hafa verið að gera leynt og ljóst. Menn hafa leynt og ljóst verið að auka starfsemina hjá þessu háskólasjúkrahúsi.

Staðsetningin var mikið rædd á sínum tíma. Ég veit ekki til þess að hún sé endanleg en menn hafa alla vega ekki leyst vandamálin með samgöngurnar þegar allir sjúklingar og starfsmenn Borgarspítalans fyrrverandi í Fossvogi keyra Miklubrautina og Bústaðaveginn. Ég hef ekki séð vandamálið leyst því að ég fer fram hjá Borgarspítalanum og þar er allt fullt af bílum og mikil umferð í kringum spítalann. Það bætist allt við samgöngukerfið sem stundum er ansi stíflað. Svo sé ég fyrir mér hjartasjúkling í sjúkrabíl á Miklubrautinni og allt er stopp. Þetta er ákvörðun sem menn taka og það er ekki búið að leysa vandamálið. Ég hef ekki séð það gert.

Rétt aðeins um aldursdreifingu þjóðarinnar. Það er rétt að hún er að breytast og snarversna. Minn árgangur er um 2.000 manns, 10–15 árum seinna er hann kominn upp í 4.000–5.000 manns. Þeir aldurshópar koma inn í þann hóp sem þarfnast mikillar umönnunar. Menn hafa ekkert tekið neitt á því, það er ekki minnst á það en að sjálfsögðu þarf að gera það. Við höfum meira að segja verið með þannig starfsemi í kyrrstöðu og stoppi eftir hrun, með ofurskattlagningu og niðurskurði þar sem fólk getur ekki farið neitt annað en til útlanda ef það vill ekki vera atvinnulaust, að við flytjum út mjög hæft fólk á öllum sviðum, sérstaklega í heilbrigðisþjónustu. Þess vegna er vandinn þar. Svo voru náttúrlega gerð risastór mistök í sambandi við starfsmannamál sem hafa valdið gífurlegum kostnaði og munu sennilega valda miklu meiri kostnaði þegar þau breiðast út um allt þjóðfélagið, alla vega allt hið opinbera kerfi.

Mér finnst hæstv. ríkisstjórn skulda starfsmönnum heilbrigðiskerfisins, þingmönnum og þjóðinni svar við því hvenær á að byggja spítala af því það er greinilega ekki verið að taka ákvörðun um það hér. Spurningin er hvenær menn ætli að taka skrefið og byggja spítala. Þessi ríkisstjórn gerir það ekki, ekki samkvæmt þeim skilningi sem kemur fram hér og ég las áðan. Það er ekki verið að byggja spítala. Það er verið að leyfa einhverju hlutafélagi að fara út í hefðbundna opinbera framkvæmd en það eru engar fjárveitingar og ekki neitt þannig að hlutafélagið er bara stopp. Ég get ekki séð að það geti gert nokkur skapaðan hlut fyrr en búið er að setja fjármuni til þess í fjárlög eða fjáraukalög.