141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

samningar við kröfuhafa gömlu bankanna.

[10:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að fá fréttir frá hæstv. ráðherra af því hvernig staðan er í þeim málum sem rædd hafa verið hér og úti í samfélaginu er lúta að vogunarsjóðum og samningum eða ekki samningum við þá sem eiga þrotabú gömlu bankanna, hvort þau skref sem stigin verða af hálfu ríkisvaldsins í mögulegum viðræðum og samningum við þá aðila verði ekki örugglega tekin í samstarfi og samráði við alla stjórnmálaflokka þannig að við sitjum þá öll við sama borð þegar að því kemur. Ég held að mjög mikilvægt sé að við sýnum samstöðu. Ef ég hef skilið hæstv. ráðherra og marga stjórnarliða rétt þá eru þeir sammála okkur sem ekki höfum komið beint að málinu um að mikilvægt sé að þeir sem leita út úr landinu með mikið fé fái ekki að fara óáreittir með það allt úr landi, ef ég má orða það þannig.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað nýtt sé að frétta af viðræðum eða samtölum við þá aðila.